135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[13:52]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er algjörlega rétt ályktun hjá hv. þingmanni að hættan vex með aukinni umferð. Við erum því miður ekki með neina sérstaka áætlun um það hvernig við ætlum að bregðast við þeirri auknu umferð sem mun verða norðan við landið á komandi árum, sérstaklega ef hafísinn bráðnar og menn telja þessa leið örugga og færa alla veganna stóran hluta ársins.

Varðandi flugslysin hins vegar sem hv. þingmaður nefndi þá er það reyndar allt annað mál og allt öðruvísi við að eiga. Þegar flugvélin fórst suðaustur af Íslandi, 200 mílur suðaustur af Íslandi um daginn, þá var níu til tíu metra ölduhæð á svæðinu og veðurfar eftir því. Ég held að það verði nú lítið vart við eins hreyfils flugvél sem lendir í slíku öldufari og ölduhæð á þessu opna hafsvæði og afar ósennilegt að hún haldist ofan sjávar nema bara örfáar mínútur og fyrir utan það að þó flugmenn séu almennt í einhvers konar þurrbúningum þá þyrftu þeir í raun að vera í flotbúningum eins og sjómenn eru í þegar þeir lenda í neyðartilfellum til þess að eiga einhverja möguleika að lifa af í nokkrar mínútur í slíkri ölduhæð.

Því miður er það bara hinn kaldi veruleiki að aðstæður hafsins bjóða oft ekki upp á að hægt sé að bjarga mönnum sem lenda í sjó úr flugvél við slíkar aðstæður þó það hafi stundum tekist sem betur fer.