135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[13:54]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér skýrslur um norrænt samstarf, vestnorrænt og norðurskautsmál. Vegna þess að ég tók þátt í vestnorrænu samstarfi í fjögur ár og þar á eftir í norrænu samstarfi undanfarin fjögur ár fram að síðustu kosningum þá langar mig aðeins að leggja hér orð í belg í umræðu um þessar skýrslur.

Mig langar að byrja á að ræða þau orðaskipti sem áttu sér stað áður hér en ég kom í stólinn, virðulegi forseti, um öryggismál á hafsvæðinu í kringum Ísland og í því sambandi leggja áherslu á mikilvægi þess samstarfs sem við ræðum hér í dag.

Hér áður fyrr heyrði maður oft á almenningi á Íslandi að menn voru að furða sig á því hvað við værum að taka þátt í þessu norræna samstarfi og hvort það hefði eitthvað upp á sig. En svo sannarlega hefur mikilvægi þessa samstarfs aukist með árunum, sérstaklega hvað varðar öryggismálin. Það er svo mikilvægt að eiga samstarf við þjóðir sem við eigum samleið með hvað varðar öryggismálin á Norður-Atlantshafinu.

Það var verið að ræða hér um olíuflutningana á norðurslóðum. Þeir flutningar hafa aukist mjög mikið. Skipaferðum hefur fjölgað mjög. Mig minnir að í gær hafi verið talað um að á þriðja hundrað skipa fari norður fyrir landið með olíu og gas. Þetta er því mikilvægt mál og við þurfum svo sannarlega að undirbúa okkur undir að tryggja öryggi Íslands ef eitthvað kemur fyrir.

Það er líka talað um aukna umferð skemmtiferðaskipa um þessi svæði og það þarf verulegan viðbúnað ef skemmtiferðaskip lendir í óhappi eða slysi því mörg hundruð manns oft eru um borð og þá þurfa menn að vera vel útbúnir til þess að grípa til björgunaraðgerða. Auðvitað er náttúru Íslands líka hætta búin hvað varðar olíuskipin ef eitthvað kemur fyrir eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson benti á. Ef stórt olíuskip verður vélarvana fyrir norðan land þá er voðinn vís því við höfum ekki bolmagn til að grípa þar inn í en yrðum náttúrlega að leita til annarra eftir aðstoð í þeim efnum. Þar hefur verið meðal annars talað um NATO-samstarfið, að þeir gætu kannski komið. En það þarf auðvitað að vera viðbúnaður hér á landi.

En ég ætla að snúa mér að norræna samstarfinu. Þar ég sem átti sæti í Norðurlandaráði hluta af þeim tíma sem skýrslan fjallar um þá langar mig aðeins að nefna nokkur atriði sem snúa að samstarfinu þar, þá fyrst máli sem getið er um í inngangi skýrslunnar þ.e. um það atriði sem lýtur að aukinni samkeppnishæfni Norðurlanda með því að minnka stjórnsýsluhindranir eða svokallaðar landamærahindranir eins og við höfum kallað þær. Það hefur farið fram mjög mikið starf á vegum Norðurlandaráðs til að koma í veg fyrir að borgarar norrænu ríkjanna og fyrirtæki lendi í hindrunum bæði við frjálsa för og rekstur og viðskipti innan Norðurlandanna.

Mig langar að nefna atvik sem við hv. fyrrverandi þm. Rannveig Guðmundsdóttir lentum í þegar við vorum að funda á Norðurlöndunum vegna aprílfundanna hjá Norðurlandaráði á síðasta ári. Þá komu íslenskir námsmenn að máli við okkur og ræddu vandkvæði sem þeir stóðu frammi fyrir vegna þess að þeim tókst illa að fá bankareikninga í Svíþjóð vegna tæknilegra örðugleika í bankakerfinu. Ég held að þá hafi vantað einhvers konar kennitölur til að geta átt eðlileg bankasamskipti og það leiddi af sér frekari vandkvæði hjá þeim í sambandi við skólann og fleira. Ég vil því leggja áherslu á hvað þetta samstarf, þetta landamærahindranasamstarf er mikilvægt. Hér er einmitt getið um að í gangi sé mikil samvinna um rafrænar þjóðskrár á Norðurlöndunum. Ég vil nefna sérstaklega þetta atriði sem snýr að því.

Á síðasta kjörtímabili sátum við Rannveig Guðmundsdóttir fyrir hönd Samfylkingarinnar í Norðurlandaráði, Rannveig í forsætisnefndinni og ég var varamaður hennar þar. Síðan átti ég sæti í umhverfisnefnd Norðurlandaráðs. Ég verð að segja eins og er að seta mín í umhverfisnefndinni hefur reynst mjög gagnleg í störfum hér á þinginu, sérstaklega þar sem ég átti sæti í umhverfisnefnd Alþingis á þessum tíma. Þar voru rædd umhverfis- og auðlindamál svo sem eins og raforkumál og þar var komið inn á raforkulögin sem sett voru hér í kjölfar tilskipunar Evrópusambandsins. Við hefðum betur fylgst nánar með hvað þar var að gerast og fengið undanþágur eins og ýmsar þjóðir hafa fengið vegna tilskipana sem ekki hafa átt við í löndum þeirra. Það var farið yfir REACH sem er tilskipun um eiturefnamál sem var að koma hér í þingið á dögunum frá hæstv. umhverfisráðherra og við erum að fara að taka inn í okkar löggjöf. Það var verið að ræða hættu af því að losa kjölvatn úr skipum sem var einmitt til umræðu hér í þinginu í gær. Það var farið mjög ítarlega yfir hættu af því að losa kjölvatn úr skipum á fjarlægum slóðum, til dæmis kjölvatn frá heitum hafsvæðum þar sem það raskar lífríkinu þegar framandi lífverur koma með kjölvatninu. Sömuleiðis var mikil umræða um öryggismál á Norður-Atlantshafinu sem var einmitt hérna til umræðu áðan.

Í umhverfis- og náttúruauðlindanefndinni var veruleg umræða einnig um loftslagsbreytingarnar og áhrif þeirra sérstaklega á okkar hafsvæði og okkar svæði. Þar kom að Bogi Hansen sem fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs á síðasta ári eða 2006. Ég hlustaði á Boga fyrir svona tíu árum síðan á fundi NAMMCO í Færeyjum. Hann var einmitt að spá um breytingar á norðurhöfum og á því svæði, Færeyjum og Íslandi og norður eftir. Það er í rauninni allt komið fram sem hann sagði þá um tíðari óveður, hlýnun hafsins, að fiskstofnar mundu færast til og svo framvegis. Á janúarfundi Norðurlandaráðs í Helsinki talaði Bogi um þessi mál öll saman og sagði að losun gróðurhúsalofttegunda væri stærsta stjórnlausa tilraun sem mannkynið hefði staðið fyrir. Hann sagði þar að það væri ekki hægt að stöðva loftslagsbreytingarnar heldur einungis draga úr þeim til lengri tíma litið. Hann sagði að það væri svo mikilvægt að stjórnmálamenn brygðust við nú þegar, það þýddi ekkert að draga það til einhverra ára. Bogi er mjög merkilegur vísindamaður og við hefðum betur hlustað á hann fyrr.

Ég sé að tíma mínum er lokið. Mig langaði aðeins að impra á þessum málum. Ég hefði getað talað um ýmislegt fleira hér sem fram hefur komið (Forseti hringir.) í umhverfisnefndinni en vildi aðeins geta þess hvað ég legg ríka áherslu að þetta starf haldi áfram vegna þess hve mikilvægt það er fyrir íslenska þingmenn að eiga þátt í því samstarfi.