135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2007.

448. mál
[14:24]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að fylgja úr hlaði skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, um starfsemi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á starfsárinu 2007. Þetta geri ég í fjarveru formanns nefndarinnar sem er upptekinn annars staðar og getur því ekki fylgt skýrslunni úr hlaði en hún liggur fyrir á þingskjali 711.

Alþjóðavæðing efnahagslífsins og aukið viðskiptafrelsi verða sífellt mikilvægari fyrir íslenska hagkerfið. Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið gegna þar afgerandi hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 29 önnur Evrópuríki á um 500 milljóna manna markaði. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.

Í starfsemi þingmannanefndar EFTA árið 2007 voru einkum tvö mál í brennidepli sem bæði beindust að því að tryggja markaðsaðgang og þar með samkeppnishæfni aðildarríkjanna. Annars vegar fjallaði þingmannanefndin ítrekað um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins og töfina sem varð á henni, og hins vegar um áframhaldandi gerð fríverslunarsamninga EFTA.

Búlgaría og Rúmenía gengu í Evrópusambandið 1. janúar 2007. Við fyrri stækkanir Evrópusambandsins var Evrópska efnahagssvæðið stækkað samhliða. Í þetta skipti tókst hins vegar ekki samkomulag um það á milli EFTA og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Samningaviðræður EFTA og ESB um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins voru því veigamikið mál á dagskrá þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES. Nefndirnar fengu reglulega upplýsingar um gang mála í viðræðum sínum við ráðherra, embættismenn og sérfræðinga og lögðu áherslu á mikilvægi þess að fá niðurstöðu í stækkunarmálinu enda bryti töfin á stækkuninni í bága við samræmi og þá meginreglu að aðildarríki að ESB, og þar með innri markaði sambandsins, séu jafnframt aðilar að EES. Helsta bitbeinið í samningaviðræðunum voru kröfur framkvæmdastjórnar ESB um svipaða þróunarstyrki handa Rúmeníu og Búlgaríu og ákveðnir voru við stækkun ESB árið 2004. Þá var þróunarsjóði EFTA komið á til þess að styðja þau átta nýju aðildarríki sem gengu í Evrópusambandið það ár. EFTA-ríkin lögðu áherslu á að þau hefðu engar lögbundnar skyldur til að hækka framlög sín en framkvæmdastjórn ESB hélt því aftur á móti fram að óviðunandi væri að Búlgaría og Rúmenía gengju í EES með verri skilmálum en giltu við stækkunina árið 2004. Samkomulag um stækkun tókst hinn 14. mars og tók aðild Búlgaríu og Rúmeníu að EES gildi 1. ágúst. Afleiðing tafarinnar var hins vegar sú að fyrstu mánuði ársins gat sameiginlega EES-nefndin ekki tekið ákvarðanir um upptöku nýrra gerða í EES-samninginn og töf varð á þátttöku EFTA-ríkjanna í rannsóknaráætlunum ESB.

Í hugum margra tengist EFTA fyrst og fremst EES-samningnum sem önnur stoð hans á móti ESB. Hin hliðin á EFTA, sem fallið hefur í skuggann af EES-samstarfinu, er aukin sókn EFTA á sviði fríverslunar og uppbygging nets fríverslunarsamninga við ríki utan Evrópusambandsins. EFTA-ríkin eru tiltölulega smá hagkerfi sem eru mjög háð utanríkisviðskiptum og greiðum aðgangi að erlendum mörkuðum. Í sameiningu teljast EFTA-ríkin þó tólfta stærsta hagkerfi heims og í krafti þeirrar stærðar og samflots hefur það verið álitlegur kostur fyrir ríki að semja við EFTA sem eina heild. Ávinningurinn er meiri og samningur því eftirsóknarverðari en ef boðið væri upp á fríverslunarsamninga við einstök EFTA-ríki.

Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA. Með aukinni svartsýni á að árangur náist í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga og ljóst er að samkeppni fer harðnandi á því sviði. Gildir fríverslunarsamningar EFTA eru nú 15 talsins og hafa engin ríkjasamtök náð meiri árangri í gerð fríverslunarsamninga að Evrópusambandinu undanskildu.

Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna. Lengi hefur verið rætt innan þingmannanefndarinnar að beita sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga EFTA við ríki utan ESB. Fyrsta heimsókn þessarar tegundar var farin til Kanada í febrúar en þar áttu fulltrúar þingmannanefndarinnar árangursríka fundi með þeim nefndum kanadíska þingsins sem fara með utanríkisviðskiptamál.

Af öðrum stórum málum sem tekin voru fyrir af þingmannanefndum EFTA og EES árið 2007 má nefna framtíðarstefnu ESB í málefnum sjávar og siglinga, umbótasáttmála ESB, orkumál og loftslagsbreytingar og framtíðarhorfur EES-samstarfsins. Hér er ekki tóm til að fara yfir þessi viðamiklu mál eða einstaka fundi þingmannanefnda EFTA og EES og vísa ég í ítarlega umfjöllun í fyrirliggjandi skýrslu Íslandsdeildar hvað það varðar.

Ég vík nú máli mínu nánar að starfsemi Íslandsdeildarinnar. Í upphafi árs skipuðu deildina hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, Birkir Jón Jónsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Lúðvík Bergvinsson og sá sem hér stendur. Nokkrar breytingar urðu á deildinni eftir kosningarnar 12. maí en hana skipa nú hv. þm. Katrín Júlíusdóttir formaður, Árni Þór Sigurðsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Illugi Gunnarsson auk þess sem hér stendur í pontu.

Ísland fór með formennsku í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES á starfsárinu 2007. Það er í verkahring formanns að leggja upp drög að fundardagskrám nefndanna og stýra fundum þeirra. Auk þess er formaður fulltrúi nefndanna út á við. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gegndi formennsku í þingmannafundunum tveimur fram að kosningum 12. maí en eftir að ný Íslandsdeild var kosin tók Katrín Júlíusdóttir við formennskunni.

Íslandsdeild var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Sá sem hér talar var skýrsluhöfundur einnar af fjórum skýrslum þingmannanefndar EES ásamt breska Evrópuþingmanninum Diönu Wallis. Það var ársskýrsla þingmannanefndar EES um framkvæmd EES-samningsins en í henni var m.a. fjallað um töfina á stækkun EES samhliða stækkun ESB og afleiðingar þeirrar tafar. Þá lagði Katrín Júlíusdóttir fram vinnuskýrslu um framtíðarhorfur EES ásamt Diönu Wallis. Í vinnuskýrslunni var fjallað um hvernig breytingar á stofnanauppbyggingu og starfsemi Evrópusambandsins á síðustu 15 árum hafa haft áhrif á framkvæmd EES-samningsins. Ég vil vekja athygli á því að þessi skýrsla, sem er reyndar enn þá skoðuð sem vinnuskjal í nefndinni, hefur nú verið þýdd á íslensku og dreift til þingmanna hér á Alþingi. Í sífellt fleiri málaflokkum er orðið erfitt að skilja á milli innri markaðarins, þar sem EFTA-ríkin eru fullir þátttakendur, og annarra sviða sem standa utan EES-samstarfsins. Óljós skil milli innri markaðar og annarra sviða í tilskipunum ESB hafa þau áhrif að erfiðara er að skilgreina hvaða tilskipanir á að taka upp í EES-samninginn og þar með innleiða í EFTA-ríkjunum.

Venja er að Íslandsdeild haldi fund með Evrópunefnd þess þjóðþings sem stendur næst í röðinni til þess að taka við formennsku í Evrópusambandinu en nýtt formennskuríki tekur við á sex mánaða fresti. Portúgalar tóku við formennsku á miðju ári 2007 og Slóvenar í ársbyrjun 2008. Íslandsdeild átti fund með fulltrúum Evrópunefndar slóvenska þingsins í Ljúblíana 4. desember sl. Anton Kokalj, formaður nefndarinnar, gerði grein fyrir helstu áherslumálum í formennskuáætlun Slóvena, svo sem fullgildingarferli umbótasáttmála ESB og áframhaldandi vinnu að markmiðum Lissabon-áætlunarinnar um að auka samkeppnishæfni sambandsins. Einnig munu Slóvenar leggja sérstaka áherslu á mótun sameiginlegrar stefnu ESB í orkumálum og stækkun Schengen-svæðisins sem ráðgerð er í mars á næsta ári. Þá verður samstarf ESB við ríki á Balkanskaga aukið. Íslandsdeild kynnti aðkomu Íslands að Evrópusamstarfi með EES-samningnum og þátttöku í Schengen og farið var yfir afstöðu stjórnmálaflokkanna til Evrópumála almennt.

Herra forseti. Ég tel að framtíð EFTA sé afar björt. EFTA hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Ég held að það skipti gríðarlegu máli fyrir okkur að nýta þetta tæki sem við höfum og þetta góða samstarf sem við eigum með þjóðum til að auka viðskiptafrelsi okkar og þar með velmegun og hagsæld.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka meðlimum Íslandsdeildar fyrir gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi sem og starfsfólki skrifstofu EFTA og sendiráðs Íslands í Brussel þar sem mikið og gott starf er unnið fyrir hagsmuni lands og þjóðar. Ég legg áherslu á að framtíð EFTA er björt. Við eigum að róa að því öllum árum að auka viðskiptafrelsi okkar og EFTA er mikilvægt tæki til þess.