135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2007.

448. mál
[14:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir greinargerð hans og skýrslu um störf Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2007 sem hann flutti sem varaformaður í fjarveru formanns nefndarinnar, hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Ég vil líka taka undir þakkir hans til nefndarmanna og ég vil fyrir mína hönd þakka samnefndarmönnum mínum í þessari þingmannanefnd fyrir ágætt samstarf það hálfa ár sem við störfuðum í nefndinni á árinu 2007 eða frá því að Alþingi kom saman eftir alþingiskosningar síðastliðið vor. Sömuleiðis vil ég færa þakkir nefndarritara Stíg Stefánssyni fyrir frábærlega vel unnin störf og sömuleiðis samstarfsfólki nefndarinnar á skrifstofu EFTA í Brussel, einkum og sér í lagi Andra Lútherssyni sem hefur verið starfsmaður þingmannanefndarinnar af hálfu EFTA-skrifstofunnar.

Eins og kom fram hjá framsögumanni má segja að einkum tvö meginatriði hafi verið til umræðu á vettvangi nefndarinnar, þ.e. annars vegar samskipti við Evrópusambandið og rekstur EES-samningsins og svo hins vegar tvíhliða fríverslunarsamningar á milli EFTA og þriðju ríkja. Þetta eru að sjálfsögðu afskaplega mikilvæg mál sem skipta okkur Íslendinga miklu máli. Fyrir lítið hagkerfi og galopið hagkerfi skipta alþjóðleg viðskipti, utanríkisviðskipti, miklu máli og fríverslunarsamningar eru að sjálfsögðu leið til að auka slík umsvif og sömuleiðis að koma íslenskum afurðum á framfæri á mörkuðum á hagkvæmari kjörum en ella væri. Íslendingar gera að sjálfsögðu marga fríverslunarsamninga tvíhliða milli Íslands sérstaklega og annarra ríkja en eiga síðan aðild að þeim samningum sem EFTA gerir.

Talsverð umræða hefur átt sér stað í tengslum við fríverslunarsamninga almennt og bent hefur verið á að það gæti svartsýni um árangur í svokallaðri Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Af þeim sökum hafi m.a. verið mikilvægt að hleypa nokkru lífi í viðræður EFTA við þriðju ríki. Ég vil ekki láta hjá líða að nefna hér í tengslum við fríverslunarsamninga, af því að sú umræða hefur að sjálfsögðu komið upp á vettvangi EFTA-nefndarinnar, það sem lýtur að öðrum þáttum í samskiptum okkar við þær þjóðir sem við erum að gera samninga við. Þá vísa ég til hluta eins og mannréttinda, félagslegra réttinda, umhverfismála og slíkra hluta. Þetta eru þættir sem er mjög mikilvægt að hafa í huga og mikilvægt að við ræðum opinskátt að hve miklu leyti við getum gert, ef svo má segja, ákveðnar kröfur til samningsaðila okkar þegar við erum að gera fríverslunarsamninga eða að hve miklu leyti þetta er hluti af stærri þróun. Almennt mun það vera gert þannig með fríverslunarsamninga að í sérstökum klásúlum er vísað til samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem lúta að þáttum eins og mannréttindum og félagslegum réttindum en þetta eru þættir sem ég fyrir mitt leyti mun reyna að halda á lofti eftir því sem ég get á þessum vettvangi og a.m.k. minna á þegar við erum í viðræðum við aðrar þjóðir. En ég undirstrika það að frá mínum bæjardyrum séð eru fríverslunarsamningar af þeim toga sem við höfum verið að gera mikilvægir fyrir Ísland.

Varðandi rekstur EES-samningsins þá er það líka afstaða mín að rekstur hans hafi í öllum aðalatriðum gengið vel og að hann hafi mörg tækifæri í för með sér, líka mörg tækifæri sem eru enn ónýtt. Við höfum kannski ekki lagt nægilega rækt við það, Íslendingar, að nýta öll þau tækifæri sem EES-samningurinn gefur okkur, bæði að því er varðar viðskipti en líka marga aðra þætti og ég nefni sérstaklega hluti eins og menningarmál, menntamál, rannsóknir, vísindi og þróun. Þar höfum við verið að taka þátt í ýmsum verkefnum innan svokallaðra rammaáætlana en það er ljóst að það eru líka fjölmargir möguleikar sem enn þá eru ónýttir. Ég nefni líka möguleika sveitarfélaga á því að taka þátt í verkefnum á vettvangi EES-samningsins og það er m.a. ástæða fyrir því að ég hef tekið upp á þessum vettvangi möguleikann á einhvers konar samstarfsvettvangi sveitarstjórnarstigsins innan EFTA. Segja má að sveitarstjórnarstigið sé í raun og veru eini hlutinn sem ekki hefur sambærilega stoð EFTA-megin eins og Evrópusambandsmegin en með stofnun héraðanefndar Evrópusambandsins í kjölfar Maastricht-samningsins var sveitarstjórnarstiginu skapaður sérstakur vettvangur innan Evrópusambandsins sem ekki hefur orðið EFTA-megin, enda var EES-samningurinn þegar um garð genginn þegar Maastricht-samningurinn var gerður og héraðanefndin sett á laggirnar. Þetta hefur verið talsvert til umræðu á sveitarstjórnarstiginu sem ég tók þátt í á sínum tíma og þetta er mál sem hefur verið tekið upp á vettvangi EFTA og inn í ráðherraráðið og er þar má segja í vinnslu. Íslensk stjórnvöld hafa verið mjög áhugasöm um að koma þessu á laggirnar. Það hefur kannski verið minni áhugi annars staðar en þetta er mál sem er í vinnslu og ég bind vonir við að verði hægt að leiða til lykta.

Ég vil líka nefna það í sambandi við EES-samninginn og vísa þá til þess sem kom fram í máli framsögumanns að unnin hefur verið sérstök skýrsla um framtíðarhorfur í því sambandi. Það er skýrsla sem réttilega kom fram að er enn þá vinnuskjal og verður væntanlega áfram til umræðu á vettvangi EFTA og EES-þingmannanefndanna en það er líka mikilvægt að fram fari pólitísk umræða um þau mál á íslenskum vettvangi — þá er ég að vísa til Alþingis og þeirra nefnda sem fjalla sérstaklega um þau mál, utanríkismálanefndar að sjálfsögðu og einnig á vettvangi þingmannanefndar EFTA — hvernig við sjáum fyrir okkur EES-samninginn þróast. Frá mínum bæjardyrum séð er mjög mikilvægt að styrkja stoðir hans eins og unnt er vegna þess að ég tel að hann þjóni hagsmunum okkar prýðilega eins og sakir standa og það er mjög mikilvægt að veikja ekki þann grundvöll sem við stöndum á með EES-samningum. Það er því mikið verk að vinna í þessu efni. Um þetta geta auðvitað verið pólitískt ólík sjónarmið hér á landi en það er eðlilegt að umræða um þau fari fram og menn skiptist á skoðunum og séu ekki feimnir við það.

Ég vil líka í tengslum við þetta nota síðustu mínútuna sem ég hef í þessari umræðu, virðulegi forseti, til að vekja athygli á og minna á skýrslu Evrópunefndarinnar frá árinu 2007, um tengsl Íslands og Evrópusambandsins, því að þar er vikið að málum sem lúta að samskiptum Alþingis við Evrópu, við Evrópusambandið og í tengslum við EES-samninginn. Við höfum tekið til umræðu í nokkur skipti áður í vetur mikilvægi þess að Alþingi sé vel upplýst um þær gerðir sem koma frá Evrópusambandinu, og ætlast er til að gangi inn í íslenskan rétt, og að það fari fram efnisleg umræða um slíkar gerðir á frumstigi á vettvangi Alþingis. Lagt er til í skýrslu Evrópunefndarinnar að kjörin verði sérstök Evrópunefnd á Alþingi. Það eru sömuleiðis fyrirheit um það í stjórnarsáttmálanum og ég ætla að nota þetta tækifæri eina ferðina enn til að ýta á að það verði að veruleika að slík nefnd verði sett á laggirnar í samræmi við þær tillögur sem þar liggja fyrir, og ég held að sé alger samstaða um pólitískt að eigi að gera. Ég minni þá líka á að þar eru tillögur um að Alþingi eigi fulltrúa í Brussel, að fastanefndir eigi kost á að fylgjast með þróun einstakra EES-gerða á sínu fagsviði og að þingflokkum sé gert kleift að rækta samskipti við systurþingflokka á Evrópuþinginu. Ég tel mikilvægt að halda þessu til haga í umræðu um skýrslu EFTA-nefndarinnar fyrir árið 2007 og ég mun a.m.k. fyrir mitt leyti reyna að impra reglulega á því á vettvangi þingmannanefndar EFTA og vonast til að um það geti orðið nokkuð góð samstaða.