135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2007.

448. mál
[14:49]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að það er mikilvægt að við klárum þetta verkefni. Ég vil líka taka fram að verkefnið snýr ekki einungis að því að koma í traustari farveg en verið hefur málum á mótunarstigi á Alþingi, meðferð þeirra mála, heldur er fjallað um fjölmargt annað í Evrópuskýrslunni sem er mikilvægt að við tökum til skoðunar og komum á koppinn. Ég vísa til þess sem fram kom í máli hv. þingmanns um samskipti við flokkahópana í Brussel, sem ég tel eðlilegt að við reynum að stofna til, ekki síst í ljósi þess að Evrópuþingið er nú að fá aukin völd við ákvörðunartökuna. Ég tel einnig mikilvægt að Alþingi eigi starfsmann í Evrópuþinginu, fulltrúa sem verði staðsettur í Evrópuþinginu og geti miðlað upplýsingum til viðkomandi nefndar á þinginu og til þingflokkanna.

Varðandi þýðinguna held ég að það sem hafi valdið mestum vandkvæðum séu mál sem ekki er enn ljóst hvort muni rata inn í EES-samninginn. Í eldri reglum var þýðingarskylda á öllu slíku líka, í raun og veru öllu sem líklegt var að gæti ratað inn í íslenska löggjöf en var enn á mótunarstigi. Sú krafa virðist í framkvæmd hafa verið mjög þungbær en það er auðvitað til skoðunar fyrir okkur hvort við eigum að sætta okkur við að slík gögn verði lögð fram á annarri tungu en íslensku fyrir eina af þingnefndunum. Ég er fyrir mitt leyti ekki tilbúinn til að úttala mig um það á þessari stundu. En þetta verður tekið til skoðunar.