135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

staða sjávarplássa landsins.

[15:01]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég vek hér máls á vanda sjávarbyggða allt í kringum landið. Ég hef rætt við 27 bæjarstjóra í 41 sveitarfélagi eða sameinuðum bæjarfélögum og vil fjalla aðeins um áhyggjur þeirra, vandamál, væntingar og baráttugleði. Þeir bæjarstjórar sem ég hef talað við eru: Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík, Hjalti Vignisson, Höfn í Hornafirði, Þórir Kr. Þórðarson Fjallabyggð, Ómar Mar Jónsson Súðavík, Erla Friðriksdóttir Stykkishólmi, Kristinn Jónasson Snæfellsbæ, Guðmundur Guðlaugsson Grundarfirði, Garðar Ólafsson Grímsey, Elliði Vignisson Vestmannaeyjum, Guðmundur Guðlaugsson Skagafirði, Svanfríður Jónasdóttir Dalvík, Ólafur Sigurðsson Seyðisfirði, Árni Sigfússon Reykjanesbæ, Sigríður Jakobsdóttir Akureyri, Helga Jónsdóttir Fjarðabyggð, Halldór Halldórsson Ísafirði, Magnús Jónsson Skagaströnd, Ragnar Jörundsson Vesturbyggð, Grímur Atlason Bolungarvík, Gísli Einarsson Akranesi, Oddný Harðardóttir Garðinum, Bergur Ágústsson Norðurþingi, Björn Ingimarsson Þórshöfn, Björn Hafþór Guðmundsson Djúpavogi, Guðni Ólafsson Tálknafirði, Róbert Einarsson Vogum og Sigurður Valur Ásbjarnarson Sandgerði.

Það má segja að þetta dekki landið og miðin. Það sem er sameiginlegt með sjónarmiðum þessara bæjarstjóra eru áhyggjur, ekki síst vegna skerðingar í þorski, áhyggjur vegna stöðu atvinnumála, fækkunar starfa í öllum byggðum landsins. Atvinnuleysið verður ekki í raun sýnilegt því að atvinnuleysið flyst burt og þannig sýna tölur sem gefnar eru upp ekki rétta mynd. Menn flytja einfaldlega burt þegar vinnan er farin út af landsbyggðinni.

Væntingar sveitarstjórnarmanna hringinn í kringum landið til ríkisstjórnarinnar eru mjög miklar. Sumum þykir lítið hafa verið gert hingað til, aðrir þakka velviljann. Menn eru þá allir á einu máli um að taka verði miklu fastar á, skipuleggja miklu betur viðbrögð og mótspyrnu við það tímabil sem er augljóslega að ganga í garð í byggðum landsins.

Það er auðvitað gífurlega mikil skerðing í sumum sjávarplássum landsins, allt upp í 7.000 tonn sem varðar tugmilljarða á tveimur, þremur árum. Þetta er vandinn sem við er að glíma. Það er mjög brýnt að taka af skarið og þess vegna finnst mér ástæða til þess að ræða það hér opinskátt á hinu háa Alþingi því að það er mjög mikilvægt að allir standi saman í þessu efni, að bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar standi saman um að taka á því oft var þörf en nú er nauðsyn. Það hriktir í stoðum landsbyggðarinnar og það mun fyrst koma greinilega í ljós á komandi sumri þegar þorskaflinn verður uppurinn og bátar bundnir og þeim lagt. Þá mun vandinn dynja á.

Það eru mörg spennandi sjónarmið hjá sveitarstjórnarmönnum um allt land og það er mikilvægt að mínu mati að stjórnvöld einbeiti sér að því verkefni að vinna að framgangi þessara mótvægisaðgerða. Það duga engar smáskammtalækningar í þeim efnum, eins og einn sveitarstjóri sagði í samtali við mig. Það eru hugmyndir um unglingavinnu, aukna vinnu fyrir konur, menningartengd störf, háskólasetur um landið, uppbyggingu íþróttamannvirkja, frágang lóða og opinna svæða, uppbyggingu upptökumannvirkja báta, rannsóknarstörf um allt land, opinber störf úti um allt land, ferðamálin, samgöngur, atvinnuþróun — að hún sé tekin föstum tökum. Það eru jafnframt hugmyndir um að byggja upp á forsendum byggðarlaganna sjálfra og hugmyndir um fiskeldi, eldi á þorski og kræklingi, byggingu félagsheimila, byggingu stórra sauðfjárbúa, olíuborunarþjónustu, heilsugæsluhótel og fleira. Það skiptir öllu máli, eins og bæjarastjórinn á Akureyri sagði, að sveitarfélög og ríki standi saman. Já, oft var þörf en nú er nauðsyn og ef það er ekki ástæða til þess að taka á þegar illa árar með því að hnykkja á í öllum verkum sem lúta að framgangi byggðanna þá er verr af stað farið en heima setið.