135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

staða sjávarplássa landsins.

[15:14]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Enn ræðum við vanda sjávarbyggða og er það ekki nema von því að þær eiga margar mjög undir högg að sækja. Að mínu mati er orsök þessa ástands sú hvernig tekist hefur til við fiskveiðistjórnina sem leiddi til þess að mörg hundruð manns, ef ekki þúsundir misstu vinnu sína og hafa hrakist af landsbyggðinni hingað suður. Hvað er hægt að gera í málinu? Að minni hyggju mundi það koma mörgum byggðum afar vel ef menn á litlum trillum fengju að róa utan kvóta og er ég hér að tala um handfæraveiðar í takmörkuðum mæli. Slíkt yrði líka góð viðleitni til að svara úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Önnur útfærsla á úthlutun byggðakvótans gæti líka vel komið til greina eins og t.d. að bjóða hann upp og láta sveitarfélög í vanda njóta þess fjár sem fyrir þetta fengist.

Ríkisstjórnin sem nú situr að völdum tók við mjög slæmu byggðabúi þjóðarinnar og er ljóst að endurreisn byggðanna verður ekki eingöngu hafin með aukningu fiskveiðiheimilda heldur með mun fjölbreyttara atvinnulífi en verið hefur. Samfylkingin og ríkisstjórnin gera sér grein fyrir þessu og vita að við verðum að auka tækifæri og fjölbreytni í störfum svo um munar, annars er hætta á því að landið sporðreisist endanlega hvað búsetuna varðar. Sú sýn sem ríkisstjórnin er með á þessi mál er mjög góð. Það er rétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, settir eru fleiri milljarðar í þessar byggðaaðgerðir og það er í raun og veru bylting í þessum málum hin síðustu árin. Það er svo sem ástæða til að gleðjast yfir því. (Gripið fram í.) Það er ekki kjaftæði, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) það er sannleikur.