135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

staða sjávarplássa landsins.

[15:21]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er eins og formaður Framsóknarflokksins hafi þurft að losna úr Stjórnarráðinu til að vakna. Hann virðist álíta að allir í Stjórnarráðinu sofi líkt og Framsóknarflokkurinn gerði öll þau ár sem hann var þar, (GÁ: Það er ekki rétt …) a.m.k. hvað tengist byggðamálum. Vegna þess að því miður hafði Framsóknarflokkurinn of lengi byggðamálin í fanginu (Gripið fram í.) og gerði ekki nokkurn skapaðan hlut í þeim efnum. Þess vegna er það eðlilegt þegar Framsóknarflokkurinn er laus úr Stjórnarráðinu, (Gripið fram í.) að hann gerir kröfu til annarra flokka um að þeir snúi öllu við á punktinum, að það sé hægt að gera einn, tveir og þrír. Og vegna frammíkalla hv. þingmanns um það sem gerðist á Austurlandi þá er það alveg rétt að Framsóknarflokkurinn tók þátt í því átaki sem þar var. En það var ekki eingöngu byggðamál, það var málefni allrar þjóðarinnar og því er rangt að kalla það eingöngu byggðamál og væri fróðlegt að sjá hvernig við stæðum ef ekkert hefði verið gert í þeim efnum. (Gripið fram í.) En það rifjar upp, af því að við erum að tala um vanda sjávarbyggða, að við eigum auðvitað að vanda okkur í þessum efnum. Nú er tekist á um það hvar t.d. næsta álver á að vera og þá blasir við, ef við eigum möguleika á því, að við hljótum að horfa til þeirra svæða sem verst standa í þessu tilliti. Þá er það auðvitað Norðausturland sem hlýtur að koma þar efst á blaði og þar á ég að sjálfsögðu við Bakka við Húsavík. Þangað eigum við að stefna til að létta á vegna þess að það eru óraunhæfar kröfur sem hér koma allt of oft fram að sjávarútvegurinn einn og sér eigi að sjá um það að byggðir landsins blómgist. Það er vonlaus krafa á hendur sjávarútveginum að hann geti einn séð um það. Þess vegna eigum við að horfa til fleiri átta og reyna að tryggja það að atvinnulífið sé sem fjölbreyttast.

En við skulum ekki gleyma því að mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem ýmsir stjórnarandstæðingar eru að reyna að gera sem minnst úr, horfa auðvitað til framtíðarinnar. Þær leysa hins vegar ekki allan vanda einn, tveir og þrír. Ég tek undir með hv. þm. Árna Johnsen, sem er rétt að þakka fyrir það að taka þetta mál upp, að það þarf auðvitað að gera betur. Ég trúi því og treysti að ríkisstjórnin sé á réttri leið, hæstv. fjármálaráðherra gat þess að með málinu væri fylgst og (Forseti hringir.) tekin væri á því punktmæling reglulega. Það er nauðsynlegt, frú forseti.