135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

staða sjávarplássa landsins.

[15:24]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég verð að leyfa mér að segja það að málsvörn Samfylkingarinnar, sem fer með þennan málaflokk, byggðamálin, hefur frá byrjun verið sú í þessum málum að ekki sé hægt að ætlast til þess að öllu sé kippt í lag á örfáum mánuðum (Gripið fram í: Er það ekki rétt?) og síðan er Framsókn skömmuð fyrir að hafa staðið sig illa í 12 ár og ekki ætla ég að blanda mér í það, (Gripið fram í.) en hef kannski gert eitthvað af því sjálfur. Ég verð hins vegar að segja að Samfylkingin kemst ekki hjá að standa ábyrg fyrir því sem gerist eftir að hún er komin í ríkisstjórn og þá verður hún auðvitað að þola gagnrýni á það sem kallaðar eru mótvægisaðgerðir en hitta ekki þá sem fyrir mesta áfallinu urðu eins og allir vita, sjómenn og fiskverkafólk koma þar lítið við sögu. Það er líka spurning hvað er að gerast undir verndarvæng Samfylkingarinnar í ríkisstjórn eða hvorum megin sem það er þegar störf eru að flytjast frá hinu opinbera af landsbyggðinni og til Reykjavíkur, nú síðast er Fasteignamat ríkisins t.d. að loka starfsemi úti á landsbyggðinni þvert á hina yfirlýstu stefnu um að færa þangað störf. Hvað er gefandi fyrir orðavaðal um það að menn ætli að fara að brjóta í blað með nýjum aðferðum, auglýsa störf án staðsetningar, þegar þróun af þessu tagi eða öfugþróun er á fullri ferð? Þegar ráðherrar hafa ekki einu sinni döngun í sér til að segja undirstofnunum sínum fyrir verkum og koma skilaboðunum þangað um að þeir ætli a.m.k. að reyna að spyrna við fótum gagnvart því að missæknin sé á fullri ferð við þessar aðstæður sem við nú búum við að þessu leyti. Auðvitað vitum við að fáein opinber störf skipta ekki sköpum í þessum efnum en það er ákaflega táknrænt og vont að fá þannig skilaboð að grjótmulningsvélin malli áfram og brjóti niður og veiki það sem þó er eftir af opinberri þjónustu vítt og breitt í byggðum landsins. (Forseti hringir.) Svo dæmi sé tekið þá væri þarna eitthvað fyrir samfylkingarmenn að huga að og vera kannski svolítið hógværari í málflutningi að öðru leyti.