135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

Evrópuráðsþingið 2007.

456. mál
[16:08]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Sem einn af þremur meðlimum Íslandsdeildar Alþingis hjá Evrópuráðinu kveð ég mér hljóðs til að fjalla örlítið um málefni Evrópuráðsins. Ég þakka formanni fyrir greinargóða skýrslu og enn fremur ræðu félaga okkar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.

Evrópumálin hafa svo sannarlega verið á dagskrá hér á landi að undanförnu og þá einkum er varðar aðild að Evrópusambandinu og Myntbandalaginu. Hvernig sem sú umræða endar leiðir hún hins vegar það í ljós að Íslendingar líta á sig og eru Evrópubúar. Menning okkar, tungumál, saga og uppruni, er tengd Evrópu órjúfandi böndum og það hefur raunar þótt sjálfsagt mál og eðlilegt að starfa í hópi Evrópuþjóða hvarvetna þar sem þær mynda bandalög eða samvinnu hvort heldur á fræðilegum, pólitískum eða öðrum samfélagslegum vettvangi. Ég leyfi mér auk þess að fullyrða að samstarf við Evrópulönd hefur verið okkur til gæfu og framdráttar og nefni í því sambandi aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ekkert eitt atvik eða atburður í sögu lands og þjóðar hefur fært okkur jafnaugljósar framfarir og lífsgæði nema kannski að frátalinni sjálfri fullveldistökunni.

Evrópa er vagga lýðræðisins og þeirrar mannréttindabaráttu sem við þekkjum og heyjum. Styrjaldir fyrri alda sem geisuðu um álfuna voru grimmar og miskunnarlausar en Evrópuþjóðirnar lærðu sína lexíu og drógu lærdóm af þeim hildarleikjum. Evrópusambandið er afsprengi þeirrar reynslu, merkileg og háleit tilraun til að opna landamæri og eyða fordómum, skapa samstarf, skilning og bræðralag. Upphaf þessarar varnar- og friðargöngu má hins vegar rekja til stofnunar Evrópuráðsins 1949. Evrópuráðið er hornsteinn lýðræðis og mannréttinda. Þar hafa fulltrúar þjóðþinga frá nær öllum Evrópuríkjum, en nú eiga 47 þjóðir aðild að Evrópuráðinu, austur og vestur, norður og suður, haft tækifæri og vettvang til að hittast og tala saman, skiptast á skoðunum, þróa með sér viðhorf, afstöðu og aðkomu á þeim grundvallarréttindum sem felast í friði, öryggi og almennum mannréttindum. Á rúmlega 300 manna samkomu sem þing Evrópuráðsins er sér ekki alltaf í gegnum málþóf og orðræður út um víðan völl en þegar upp er staðið hafa þær gildi að því leyti að menn með ólík sjónarmið og mismunandi bakgrunn og menningu eru að gera tilraun til að nálgast það viðfangsefni sem mikilvægast er, að bera virðingu fyrir hverjum einstaklingi, rétti hans og tilveru.

Við þróum með okkur alls kyns skipulag valds og stjórnar, byggjum upp kansellí stjórnarfars og skrifræðis og hinn almenni óbreytti borgari kaffærist stundum í reglugerðum og týnir sjálfum sér í þrautagöngu milli silkihúfa og sinnulausra yfirvalda. Allt eru þetta tilraunir til að skapa réttlæti og sanngirni í nafni laga og siðferðis í þágu einstaklinga sem þurfa ýmist að sækja rétt sinn eða verja hann. Evrópuráðið hefur unnið drjúgt starf til að varðveita þessi grundvallarréttindi. Það kann að taka tíma og fyrirhöfn, það kann að vera erfitt í framkvæmd og lítil ræða í stórum sal hverfur gjarnan í mannhafinu og málæðinu. En dropinn holar steininn og ef ekki væri vettvangur á borð við Evrópuráðið þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar koma saman með reglubundnum hætti frá hverri einustu Evrópuþjóð þá væri róðurinn svo sannarlega þyngri og leiðin lengri fyrir hvern og einn til að ná rétti sínum. Um þetta snýst heila málið, um þetta snýst starf Evrópuráðsins, um mannréttindi. Sagan kennir okkur að að mannréttindum er sótt úr öllum áttum í stríði og átökum þjóða í milli og hjá þjóðum innbyrðis, í þjóðskipulagi og stjórnarfari sem er heimatilbúið af valdamönnum og stofnunum og af völdum fordóma og sérhagsmuna, jafnvel illra hvata og tillitsleysi, fákunnáttu eða einfaldlega af yfirgangi og forheimsku. Oft er þetta í nafni lýðræðisins en sannleikurinn er sá að lýðræðið er túlkað með misjöfnum hætti og hver lítur silfrið sínum eigin augum. Í Evrópuráðinu endurspeglast þessi viðhorf aftur og aftur af sögulegum, menningarlegum eða veraldlegum ástæðum því að lýðræðið á í raun og veru enn þá langt í land og það er þess vegna sem Evrópuráðið er að mínu mati enn svo nauðsynlegt og raunar dýrmætt.

Fyrr í vetur voru Evrópumál sérstakt dagskrárefni á hinu háa Alþingi. Það vakti athygli mína í því sambandi að hvergi var getið um störf Evrópuráðsins í þeirri skýrslu sem þar var rædd, tók sennilega ekki að nefna það. Það er jafnvel sótt að Evrópuráðinu af Evrópusambandinu sjálfu sem telur Evrópuráðið kannski hafa meira og minna lokið hlutverki sínu og sé barn síns tíma. Það er gerð atlaga að Evrópudómstólnum í Haag með því að draga úr fjárveitingum dómstólsins og jafnvel að stofna ekki kannski dómstól en aðra stofnun á vegum Evrópusambandsins sem á að fjalla um brot á mannréttindum og vísa ég í því sambandi til ummæla í ræðu hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur. Ég minni enn og aftur á að Evrópuráðið er eina evrópska stofnunin og vettvangurinn þar sem nær allar Evrópuþjóðir eru saman komnar, sitja þar við sama borð. Við Íslendingar höfum verið aðilar að Evrópuþinginu um langan aldur en það hvarflar stundum að mér að hlutverk okkar hafi lengst af verið í dálitlu skötulíki að því leyti að fjárveitingar hafa stundum verið skornar við nögl og þátttakan af okkar hálfu hefur verið meiri í orði en á borði. Við sem nú sitjum í Evrópuráðinu fyrir hönd Alþingis og íslensku þjóðarinnar höfum metnað til að láta að okkur kveða, taka þátt í nefndarstörfum og málatilbúnaði og leggja fram reynslu okkar og upplifun af því lýðræði og þeim mannréttindum sem tekist er á um. Það er algerlega óhugsandi að Ísland taki ekki þátt í Evrópuráðinu og meðan við gerum það eigum við að gera það með fullri reisn.

Hæstv. forseti. Vel má vera, og auðvelt er að skilja það, að á fyrri árum hafi alþingismenn ekki talið sér skylt eða fært að leggja til mála sem snerust um deilur annarra þjóða í milli, um lagfæringar á mannréttindamálum í fjarlægum löndum eða blanda sér í staðbundin vandamál og viðfangsefni á ystu mörkum álfunnar, menn höfðu nóg með sitt. En heimurinn hefur breyst með ógnarhraða, hnattvæðing, alþjóðavæðingin með stökkbreytingum í tækni, samgöngum og fjarskiptum hefur fært okkur nær hvert öðru. Okkur er ekkert óviðkomandi lengur, við höfum skoðanir á því hvort kosningar séu réttar og löglega framkvæmdar í hinum ýmsu Evrópulöndum, hvort minnihlutahópar séu beittir misrétti, hvort einstaklingar séu sviptir rétti til að verja sjálfa sig eða njóta yfirleitt grundvallarmannréttinda. Gætum að því að Ísland er að verða í æ ríkara mæli heimili og a.m.k. athvarf þúsunda fólks sem hefur fæðst og alist upp í öðrum löndum. Það flytur með sér menningu og hugmyndir sem kunna að sýnast sérkennilegar og framandi í okkar augum, m.a. út frá grundvallarhugsun okkar um lýðræði og mannréttindi. Þetta getur stundum vafist fyrir okkur, það getur kostað misskilning og árekstra og slíkan misskilning er mikilvægt að uppræta því að þetta er í hnotskurn það sem við erum að takast á um í Evrópu og í heiminum öllum. Búferlaflutningar, blöndun ólíkra þjóða og þjóðarbrota er daglegt viðfangsefni og viðfangsefni nútímans.

Ég nefni þetta, hæstv. forseti, til að undirstrika að hér er verið að fjalla um mál sem snertir Ísland en er um leið þess eðlis að Íslendingar sem lýðræðisþjóð og fullgildir þátttakendur í alþjóðasamstarfi geta ekki látið hjá líða að hafa skoðun á málum af þessu tagi og láta sig þau varða. Það er undir þessum formerkjum sem við í Íslandsdeildinni störfum í Evrópuráðinu.