135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:43]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Mál þetta hefur fengið ítarlega umfjöllun í þingsal og hv. formaður allsherjarnefndar, Birgir Ármannsson, gerði grein fyrir því hvað fram fór í allsherjarnefnd eftir að málinu var vísað eftir atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. Ég fór fram á að kannað yrði ítarlega hvort þarna væri um brot að ræða gegn jafnræðisreglu íslenskra stjórnskipunarlaga. Ekki var talin ástæða til þess að verða við því af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Við því er ekkert að segja umfram það sem ég hef þegar tjáð mig um hér og sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem þegar hefur verið sagt í fyrri umræðum um málið. Ég þó ítreka öll þau sjónarmið sem ég hef komið fram með hvað þetta varðar.

Í nefndaráliti 2. minni hluta voru settar fram breytingartillögur, ákvæði til bráðabirgða. Eftir að málið hefur verið afgreitt með þeim hætti sem um ræðir og breytingartillögur allsherjarnefndar samþykktar við meðferð málsins eftir 2. umr. þá dreg ég þær breytingartillögur til baka og líka ákvæði til bráðabirgða. Ég sé ekki ástæðu til að greitt sé um það atkvæði hér, ekki síst vegna ummæla hv. formanns allsherjarnefndar, Birgis Ármannssonar, og hæstv. forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, um að tryggja verði öllum þingmönnum sambærilega aðstöðu hvað varðar aðstoðarmenn. Reyndar er kveðið á um það og varðar ákveðin tímamörk í ákvæði til bráðabirgða eins og ég hafði sett það fram. Ég tel því að þær yfirlýsingar séu ásættanlegar miðað við aðstæður og að sjálfsögðu verður við það að miða að allir þingmenn búi við sömu starfskjör að öllu leyti. Að sjálfsögðu ber að taka tillit til mismunandi aðstæðna en við verðum fyrst og fremst að gera okkur grein fyrir því að þingmenn sem kjörnir eru á þjóðþing Íslands eru þingmenn þjóðarinnar en ekki einhverra sérstakra hagsmuna.