135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[17:02]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, sem hér er rætt, með þeirri hugsun sem í því endurspeglast, er stórt skref til að efla megi árangur alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og setja henni faglegan búning. Núgildandi lög eru frá árinu 1981 og síðan þá hefur þróunarsamvinna aukist til muna og verklag breyst.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu eru mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og friðsamleg lausn deilumála. Einnig kemur þar fram að þróunarsamvinna er stærsti einstaki útgjaldaliður utanríkisráðuneytisins, en 0,31% af vergum þjóðartekjum okkar fara í þróunarsamvinnu í ár og gert er ráð fyrir að hlutfallið verði 0,35% á næsta ári, árið 2009, eða um 4,6 milljarðar kr.

Nýr lagarammi gerir ráð fyrir að utanríkisráðherra leggi annað hvert ár fram tillögur til þingsályktunar um þróunarsamvinnuáætlun til fjögurra ára. Þá gefst tækifæri fyrir þingmenn að hafa áhrif. Einnig eru verkferlar settir í gang sem eru til þess gerðir að hafa yfirsýn og fylgja eftir heildarstefnu í málaflokknum.

Stefnumið Íslands í þróunarsamvinnu hafa verið sett fram. Þau eru fjögur. Þessir fjórir hornsteinar eru í fyrsta lagi mannauður, jafnrétti og efnahagslegir þættir, í öðru lagi lýðræði, mannréttindi og stjórnarfar, í þriðja lagi friður, öryggi og þróun og í fjórða lagi sjálfbær þróun.

Markmið allrar þróunarsamvinnu er að styrkja stöðu þróunarlanda til framtíðar. Í samræmi við hornsteina í stefnumörkun Íslands í málaflokknum vil ég sjá okkur nýta þá fjármuni og þann mannauð sem við leggjum til þróunarsamvinnunnar í menntun, fyrst og síðast í menntun. Ég tel reyndar að menntun sé svo nauðsynleg í allri þróunaraðstoð að hún mætti mín vegna vera eini þáttur þróunarsamvinnunnar sem við leggjum áherslu á.

Ég get auk þess vissulega bent á að aðstoð við uppbyggingu lýðræðis og stjórnskipulags í þróunarlöndunum skiptir miklu máli. Ég vil nefna í þessu sambandi að nú liggur fyrir þinginu þingsályktunartillaga Steingríms J. Sigfússonar og fleiri þingmanna um smáríkjastofnun Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Ég tel að við höfum af mikilvægri reynslu að miðla í því samhengi þar sem við höfum á tiltölulega skömmum tíma byggt upp lýðræðisríki sem ég tel að geti verið öllum öðrum ríkjum til fyrirmyndar og ekki síst þróunarríkjum. Auk menntunar og uppbyggingar lýðræðis og stjórnskipulags held ég að það skipti miklu máli að við miðlum þekkingu okkar og reynslu sem við höfum byggt upp á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.

Aftur að menntuninni því að hún er að mínu viti merkasta framlagið. Menntunin hefur áhrif á lýðræði, mannréttindi, efnahagsuppbyggingu og atvinnuuppbyggingu. Ég gæti lengi talið til viðbótar og ekki síst hefur hún áhrif á frið. Menntun er helsti hvati og aflvaki framfara.

Frumvarpinu verður líklega vísað til nefndar eftir umræðuna í dag og þar munum við eflaust ræða einhver álitamál og fá nánari tækifæri til að kynnast sjónarmiðum hagsmunaaðila. Í frumvarpinu er tekið sérstaklega á samræmingu þróunarsamvinnunnar.

Í greinargerðinni eru taldir upp sjö verkferlar sem eru mikilvægir til að hafa yfirsýn og fylgja eftir heildarstefnu í málaflokknum. Þeir eru: Í fyrsta lagi stefnumið íslenskra stjórnvalda í þróunarsamvinnu sem eru sett til fjögurra ára í senn. Í öðru lagi fjárlagarammi á hverju ári samkvæmt fjárlögum. Í þriðja lagi aðgerðaráætlun sem er unnin út frá stefnumiðum og áherslum ríkisstjórnarinnar. Í fjórða lagi verkefnaáætlun fyrir viðkomandi ár sem byggð er á fjárlögum. Í fimmta lagi verklagsreglur sem miða að því að auka skilvirkni og gegnsæi í starfinu. Í sjötta lagi fjármálastjórn og almennt eftirlit með framlögum til þróunarsamvinnu. Í sjöunda lagi stöðuskýrsla sem tekur til allrar þróunarsamvinnu á vegum íslenska ríkisins þar sem gerð er grein fyrir því hvernig fjármunum til málaflokksins er varið og einnig fyrir því starfi sem fram fer á vegum utanríkisráðuneytisins. Þessi vinnubrögð eru til þess fallin að auka má möguleika á að árangur náist. Eftirlit með málaflokknum gæti verið til fyrirmyndar innan þessa ramma. Ég álít þennan ramma í anda árangursstjórnunar og til þess fallinn að ganga upp.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég taka fram að ég er ósammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og fleiri þingmönnum Vinstri grænna sem líta á friðargæslu Íslendinga í ljósi hernaðar og setja málefnið í þann búning. Þegar hv. þingmaður las upp markmið þróunarsamvinnu Íslands samkvæmt frumvarpinu las hann einungis fyrri hluta markmiðsgreinarinnar. En ég vil, með leyfi forseta, lesa alla greinina. Hún hljóðar svo:

„Meginmarkmið með alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands eru að styðja viðleitni stjórnvalda í þróunarlöndum til að útrýma fátækt og hungri, stuðla að efnahags- og félagslegri þróun, þ.m.t. mannréttindum, menntun, bættu heilbrigði, jafnrétti kynjanna, sjálfbærri þróun og sjálfbærri nýtingu auðlinda.“

Og hér stoppaði hv. þm. Árni Þór Sigurðsson en ég ætla að bæta við af því greinin heldur áfram:

„Það heyrir einnig til markmiða þessara að tryggja öryggi á alþjóðavettvangi, m.a. með því að stuðla að friði og gæta hans, vinna að uppbyggingu og gæslu friðar og veita mannúðar- og neyðaraðstoð þar sem hennar er þörf.“

Samkvæmt stefnumiðum Íslands eru friður, öryggi og þróun einn af hornsteinum alþjóðlegrar þróunasamvinnu. Friðargæslan er einn af mikilvægustu þáttum starfseminnar samkvæmt markmiðum frumvarpsins og stefnumiðum Íslands eins og áður hefur komið fram, friður er á dagskránni.

Ég styð heils hugar markmið frumvarpsins og hlakka til að fjalla um það sem nefndarmaður í utanríkismálanefnd.