135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[17:09]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég las það úr markmiðsgreininni sem ég er sammála, og lýsti mig sammála því. Það var í því samhengi sem það var gert.

Varðandi frið og öryggi á alþjóðavettvangi þá er að sjálfsögðu enginn ágreiningur um það að við viljum stuðla að friði og við viljum varðveita frið. En það má heldur ekki gleyma því að Ísland er herlaus þjóð. Við höfum ekki her og ætlum okkur vonandi ekki að hafa her og eigum þess vegna ekki að mínu viti að taka þátt í hernaðarstarfi.

Friðargæslan í Afganistan, eins og við höfum verið að ræða um hér í þingsal, er ekki eingöngu borgaralegs eðlis. Hún er líka hernaðarlegs eðlis og við höfum verið að taka þátt í þeim hluta friðargæslunnar. Það er það sem við höfum gert athugasemdir við og mótmælt.

Ég geri mér vel grein fyrir því að þetta er umdeilt mál líka í alþjóðasamfélaginu. Því var haldið fram í umræðu um þetta mál, m.a. af hæstv. utanríkisráðherra, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri eini aðilinn í víðri veröld sem hefði þennan skilning á friðargæslunni í Afganistan. En það er rangt, þetta er mjög umdeilt mál í alþjóðasamfélaginu. Þetta er mjög umdeilt mál í stjórnmálum hér í næsta nágrenni við okkur, t.d. í Noregi. Þó að norsk stjórnvöld hafi ákveðið að vera þar með sitt lið — Noregur hefur þó her — þá er það mjög umdeilt mál, það er ekki auðvelt fyrir stjórnvöld og ekki má gera lítið úr því.

Ég vil halda því til haga í þessu samhengi að ég tel vont fyrir þróunarsamvinnumálið — sem er þýðingarmikið verkefni og góð almenn pólitísk samstaða er um — að blanda svona umdeildum hlutum inn í það. Það er algjör óþarfi. Það þarf ekki að gera það með þeim hætti sem hér er gert.