135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[17:12]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum sammála um margt í þessu tilliti. Ég er sammála markmiðunum í heild þar sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er að hálfu leyti sammála eða kannski ríflega það.

Mér virðist að málflutningurinn gangi út það að friðargæslan í Afganistan sé stóra spurningarmerkið sem við setjum. Friðargæslu í Afganistan þekki ég ekki mjög vel, ég veit hins vegar að á stefnuskránni er að byggja upp þessa borgaralegu þætti sem hafa með mannréttindi, réttarríkið og lýðræðið að gera.

Ég veit líka, mér er kunnugt um það, eins og þingmönnum hér flestum ef ekki öllum, að uppbygging menntamála í Afganistan hefur verið töluvert mikil á undanförnum árum og þar mundi ég vilja sjá okkur taka þátt í borgaralegum verkefnum sem vissulega eiga að stuðla að friði í Afganistan.

En ég held að frumvarpið fjalli ekki um Afganistan. Frumvarpið fjallar um friðargæslu í breiðum og víðtækum skilningi og ég er alveg viss um að þar sem stríð á sér stað, og þar sem stríðshrjáðar þjóðir eru, er kannski erfitt að greina á milli hernaðarlegra og borgaralegra þátta á vettvangi friðargæslu. En ég get ímyndað mér að það sé hægt. Íslendingar sem herlaus þjóð munu vissulega beita sér fyrir uppbyggingu á borgaralegum forsendum.