135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[17:14]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar skoðanaskipti fá að eiga sér stað gerist það oft að menn reyna að greina kjarnann frá hisminu og átta sig á því hvað það er sem sameinar og hvað það er sem skilur að í viðhorfum og skoðunum. Það er rétt að við erum öll meira og minna sammála um markmiðin með þróunarsamvinnunni eins og þeim er lýst. Ég held líka að enginn stór ágreiningur sé um það hvert markmiðið með friðargæslu af Íslands hálfu á að vera.

Það var líka prýðileg samstaða hér í fyrra, eftir því sem ég best veit, þegar lögin um íslensku friðargæsluna voru sett. Það var áður en ég tók sæti á Alþingi en eftir því sem ég hef kynnt mér þá var heilmikil umræða um það mál en að lokum náðist góð pólitísk samstaða um það sem sett var inn í lögin þar, og við höfum þess vegna lög um friðargæsluna.

Ég er þeirrar skoðunar að starf okkar í friðargæslumálum eigi að grundvallast á þeim lögum en ekki að taka þau inn í lögin um Þróunarsamvinnustofnun. Það er ekki vegna þess að ég sé endilega á móti öllu friðargæslustarfi Íslendinga. Það er ekki nema síður sé. En þar tel ég mikilvægt að við greinum á milli þess sem er borgaralegs eðlis og þess sem er skrifað í lögin um friðargæsluna, að íslensk friðargæsla eigi að vera borgaraleg friðargæsla, ekki hernaðarleg. Þegar komið er út á vettvang geta skoðanir vissulega verið skiptar um það hvar línan nákvæmlega er og þar kunna að vera og eru bersýnilega skiptar skoðanir á milli stjórnmálaflokkanna. Friðargæslu er skipað með sérstökum lögum og sé ég því ekki þörf á því að draga hana inn í þetta, það skapar einungis ágreining um annars ágætt mál.