135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[17:29]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir viðbrögð hans hér við ræðu minni. Hann fór í gegnum athugasemdirnar sem ég hafði sett fram og ég vænti þess að þær fái efnislega umræðu á vettvangi utanríkismálanefndar.

Mér finnst mjög mikilvægt í máli eins og þessu að það geti farið fram hreinskiptin umræða innan nefndarinnar um þau álitamál sem eru uppi. Ég held að það sé rétt sem hæstv. ráðherra sagði að það sé góður samhljómur um meginstefið í þeirri löggjöf sem hér er verið að leggja til að Alþingi samþykki. Þróunarsamvinnan er vissulega þýðingarmikið verkefni fyrir okkur.

Ég vonast að sjálfsögðu til þess að við getum fengið góða umræðu um málið í nefndinni og jafnframt vonast ég til þess að þótt mismunandi áherslur séu á tilteknum þáttum þá líti menn ekki svo á að það megi ekki hlusta á þessi viðhorf af því þau koma úr röðum stjórnarandstöðunnar. Mér finnst mjög mikilvægt að farið sé yfir þau efnislega. Það er líka mikilvægt að stjórnarmeirihlutinn leggi eitthvað á sig til að reyna að koma til móts við þau viðhorf að svo miklu leyti sem það er unnt til þess að um þetta mikilvæga mál geti tekist breið og góð samstaða á Alþingi því að málefnið sjálft á það svo sannarlega skilið.