135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

lífrænn landbúnaður.

[13:39]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort mótuð hafi verið stefna hjá hæstv. ríkisstjórn og hvaða viðhorf hann hafi sem landbúnaðarráðherra til aðlögunarstuðnings við lífrænan landbúnað. Á undanförnum dögum hafa verið töluverðar umræður og skrif í blöðum um lífrænan landbúnað og þá stöðu sem hann býr við hér á landi. Að sumu leyti tel ég það koma til vegna hækkaðs áburðarverðs, kjarnfóðurs, og hækkandi flutningskostnaðar. En mér finnst það vera að koma aftan að hlutunum að hafa ekki mótaða stefnu um hvað þetta mikla og mikilvæga mál þýðir fyrir bændur og láta þvinga sig inn í stefnumótandi aðgerðir um lífrænan landbúnað.

Ég tel að í svari sem hæstv. ráðherra veitti hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir stuttu, þar sem spurt var um hækkandi áburðarverð og framleiðslu á köfnunarefnisáburði, hafi komið fram að hugsanlegt væri að þessar hækkanir í hefðbundinni framleiðslu mundu leiða til þess að fleiri færu út í lífræna ræktun eða lífræna framleiðslu. En miðað við þann mikla áhuga og eftirspurn sem er eftir vottuðum, lífrænum vörum í verslunum á Íslandi tel ég að íslenskir bændur hafi misst af og séu að missa af tækifæri til fjölbreyttari framleiðslu til að mæta eftirspurn á matvælamarkaðnum. Þeir eru að missa af tækifæri til að uppfylla þessar kröfur með góðri vöru hér á landi í stað þess að auka stöðugt innflutning. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi þennan þátt landbúnaðarins?