135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

Reykjavíkurflugvöllur.

[13:48]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt að það má orða þetta eins og hv. þingmaður gerði og taka undir að það er hálfgert vandræðaástand á Reykjavíkurflugvelli hvað varðar uppbyggingu vegna þeirrar óvissu sem er um það hvort völlurinn á að vera eða fara. Þannig hefur það verið í fjölmörg ár.

Við vitum að það hefur staðið til lengi að byggja samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll en það hefur ekki fengist. Ég átti fund með fyrrverandi borgarstjóra síðastliðið haust til þess að ræða það mál og í framhaldi af því var það sett í ákveðinn farveg gagnvart skipulagsmálum, deiliskipulagi. (Gripið fram í.) Já, það er kannski rétt að segja fyrrverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, af því það eru svo margir fyrrverandi borgarstjórar. Síðan höfum við auðvitað fylgst með því hvernig þessi mál eru að þróast og hvað er í gangi. Ég ætla að nefna samgöngumiðstöðina, við vitum ekki hvenær við fáum leyfi til að byggja hana en í samgönguáætlun eru ætlanir um það. Það getur hins vegar tekið einhvern tíma hjá skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurborgar.

Við höfum lesið um áform Iceland Express, þeir hafa komið á fund til okkar í samgönguráðuneytið vegna þess að þeir vilja hefja innanlandsflug til Akureyrar og Egilsstaða og hefja þar með samkeppni sem er hið besta mál og er alltaf til góðs fyrir notendur. Við settum 60 millj. í fjárlög til þess að skapa flughlað fyrir þá starfsemi. En það er rétt sem hv. þingmaður sagði að það var greinilega þannig að umsókn Iceland Express, sem ætlaði sjálft að skapa sér húsakostinn, var hafnað þannig að það er í pattstöðu. Nýlega lásum við, og vonandi hafa allir gert það, blaðaskrif frá forstjóra Flugfélags Íslands um að þeir séu orðnir þreyttir á að bíða og séu með hugmyndir um að fá að endurbyggja hús í staðinn fyrir það sem ég kalla stundum skúrana en kallast flugstöð á Reykjavíkurflugvelli og get ég kannski komið að því rétt á eftir. En það er auðvitað rétt að þetta er óþolandi ástand.

Meðan vinna fer fram við rannsóknir á Hólmsheiði vitum við að völlurinn á eftir að (Forseti hringir.) vera þarna í dálítið mörg ár þó svo að Reykjavíkurborg komist að þeirri niðurstöðu að hann eigi að fara og þess vegna er óþolandi að flugið fái ekki að þróast þarna eins og það þyrfti að gera.