135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

endurskoðun úthlutunar á þorskkvóta.

[13:55]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þó að ég sé góðviljaður get ég því miður ekki tilkynnt hv. þingmanni það úr ræðustólnum að ég ætli að ákveða aukningu á þorskkvótanum í dag. Hins vegar stendur núna yfir yfirgripsmeira togararall en nokkru sinni hefur átt sér stað. Það er skipulagt núna í mjög nánu samstarfi sjómanna, útvegsmanna og vísindamanna. Farið var mjög rækilega yfir þau mál í sérstakri nefnd sem sett var á laggirnar og í sátu fulltrúar allra þeirra sem ég nefndi. Alþingi ákvað í fjárlögum í ár að setja 50 millj. til viðbótar og raunar 50 í fjáraukalögunum í fyrra til að hægt væri að stórauka þessar rannsóknir og þær rannsóknir standa yfir núna og ég trúi því að út úr því komi betri og nákvæmari mæling en við höfum áður átt að venjast á stöðu þorskstofnsins.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru mjög góðar fréttir sem við heyrum núna mjög víða um vaxandi fiskgengd. Og það eru auðvitað mjög góðar fréttir sem við höfum heyrt undanfarna daga um að það sé mat þeirra sem m.a. vinna fiskinn og umgangast hann að þetta sé betri og vænni fiskur en áður hefur verið og vonandi er það vísbending um einhver jákvæð teikn. En við skulum ekki gleyma því að hluti af því að við urðum að grípa til niðurskurðar á þessu fiskveiðiári var að heildarþyngd þorskstofnsins hafði minnkað og 40% af skýringunni á minnkuninni á milli ára helgaðist af því að fiskurinn var léttari.

Hv. þingmaður nefndi líka sérstaklega aflafréttir utan af Hampiðjutorgi. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur verið á þessum slóðum undanfarna daga m.a. til að tékka á þessu og til reyna að átta sig á þeim fréttum sem þaðan eru að koma. Ég vil því segja að reynt er að gera sem flest til að reyna að slá máli á stærð þorskstofnsins. Við skulum ekki gleyma því að ákvörðunin um að gefa út loðnukvóta var gefin og tekin á grundvelli rannsókna sem gerðar voru, ekki á grundvelli frétta sem borist höfðu (Forseti hringir.) eða mati sjómanna heldur á grundvelli þeirra rannsókna sem þá höfðu verið framkvæmdar.