135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[14:08]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar er mál þetta hluti af breytingum á þingstörfum sem forsætisnefnd þingsins hefur haft forgöngu um og hæstv. forseti þingsins, Sturla Böðvarsson. Um málið hefur verið allvíðtækt samstarf og samráð þó að rétt sé sem fram kom í máli hans að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ekki átt aðild að þeirri samstöðu. Eins hefur hv. þm. Jón Magnússon ekki verið fylgjandi málinu og hefur það komið fram við fyrri umræður.

Ég vísa til þess sem segir í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar sem gerð var grein fyrir við 2. umr. Þar segir að nefndin líti svo á að hér sé um að ræða hluta af því verkefni að bæta stöðu og starfsumhverfi Alþingis og alþingismanna og vísar til þess sem áður hefur komið fram að allsherjarnefnd beinir því til forsætisnefndar að halda áfram þeirri vinnu, m.a. með tilliti til þess að aðstoð verði almennt aukin við þingmenn.