135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands.

370. mál
[14:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég beini svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra: Hyggst ráðherra beita sér fyrir eflingu Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar Íslands og fjölgun starfa þar?

Ástæða fyrirspurnar minnar er sú að árið 2000 voru á vegum stofnunarinnar á Akureyri um tíu starfsmenn í níu stöðugildum. Þá var verið að undirbúa flutning stofnunarinnar í Borgir þar sem Háskólinn á Akureyri er með starfsemi sína og mikil umræða í gangi um að gert væri ráð fyrir fjölgun á störfum á vegum stofnunarinnar. Er nú svo komið að í þeirri aðstöðu sem Náttúrufræðistofnun Íslands er með á Akureyri er hæglega aðstaða fyrir 13–14 starfsmenn.

Eins og staðan er núna eru einungis sex starfsmenn starfandi á Akureyrarstofunni en reyndar er búið að auglýsa tvö stöðugildi þar sem vonandi verður ráðið í fljótlega. Hins vegar er ljóst að þá verða starfsmenn stofnunarinnar einungis átta og auðveldlega væri hægt að bæta sex stöðugildum við þá mikilvægu starfsemi sem þarna fer fram.

Ég vil benda á, hæstv. forseti, að það er mjög vel hægt að efla þá starfsemi sem fyrir er, það er m.a. hægt að gera með öflugu samstarfi við Háskólann á Akureyri og þarna er t.d. til staðar sameindafræðibúnaður sem hægt væri að nýta mun betur. Ég tel að hægt sé að efla Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands til muna ef vilji er fyrir hendi af hálfu stjórnvalda og því beini ég ofangreindri fyrirspurn til hæstv. ráðherra.

Í ofanálag horfum við upp á það að á Akureyri hefur störfum stórfækkað að undanförnu, m.a. við fiskvinnslu sem vissulega hefur haft sín áhrif á störf á Akureyri sem og í öðrum sjávarbyggðum. Í aðdraganda síðustu kosninga talaði Samfylkingin mjög mikið fyrir störfum án staðsetningar, að stórfjölga ætti opinberum störfum á landsbyggðinni. Í framhaldinu varð reyndar gríðarlegur niðurskurður á þorskveiðiheimildum eins og allir þekkja og var þá gripið til svokallaðra mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar sem nú eru í endurskoðun.

Ég vil í þessu samhengi spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé reiðubúin til að beita sér fyrir því að starfsemi Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar Íslands verði efld til muna, enda er þar um mikilvæga starfsemi í fræðasamfélaginu á Akureyri að ræða og því áríðandi að fá svar við þessari fyrirspurn hér.