135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands.

370. mál
[14:15]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn. Eins og kom fram í máli hans stóð til á sínum tíma að hafa fleiri starfsmenn á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri. Árið 2004 þurfti að bregðast við ákveðnum fjárhags- og rekstrarvanda stofnunarinnar og þá var starfsmönnum fækkað bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Nú eru átta stöðugildi fyrir norðan. Verið er að ráða í stöður þeirra tveggja sem látið hafa af störfum í vetur, annar fyrir aldurs sakir. Á næstu dögum verður ráðið í stöðu jarðfræðings og umsóknarfrestur í starf grasafræðings eða flokkunarfræðings rennur út 15. mars nk. og þá verður ráðið í þá stöðu. Þetta eru sem sagt átta stöður. Að auki er í undirbúningi og mun gerast mjög bráðlega að Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskólinn á Akureyri gangi frá samstarfssamningi stofnananna tveggja um ráðningu eins sérfræðings, eins starfsmanns, sameindalíffræðings, og skipti því starfi í tvennt. Að helmingur verði hjá Náttúrufræðistofnun og helmingur hjá Háskólanum á Akureyri og nýtist þannig þessum stofnunum sem geta á svo margan hátt unnið saman.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni í því að starf Náttúrufræðistofnunar Íslands ber að efla. Það ber að efla það á Akureyri og það ber líka að efla það í Reykjavík. Það er mjög mikil óunnin vinna við rannsóknir, við gerð náttúrufarskorta og aðrar grunnrannsóknir sem gera þarf af lífríki og náttúru Íslands og ég vil beita mér fyrir því í ríkisstjórninni að það verði gert á næstu árum. Til þess þarf að öllum líkindum aðeins meiri mannafla. Það er auðvitað þannig að náttúra landsins er um allt land og starfsmenn Náttúrufræðistofnunar eru öll sumur út um allt land að vinna þau rannsóknastörf sem þeir þurfa að vinna.

Ég vil einnig láta þess getið hér að svo virðist sem þeir sem búa sunnan heiða telji það eftir sér að flytja norður. Fólki hefur boðist flutningur en það hefur ekki gengið eftir eins og við hefðum kannski viljað. Það virðist vera þannig að fjölgun starfsmanna fyrir norðan verði aðeins með nýju starfsfólki. Það er gott og vel. Það er einnig áhugavert að horfa á það með tilliti til þess ráðningarferlis sem nú er í gangi vegna starfanna tveggja sem verið er að ráða í að næstum allar umsóknirnar eru frá útlendingum en ekki Íslendingum. Mér finnst áhugavert að skoða málin í því samhengi. Ég held að það sé í sjálfu sér hið besta mál en það segir okkur kannski meira en nokkuð annað að það virðist vera auðveldara fyrir útlendinga að flytja til Akureyrar en fyrir Reykvíkinga að flytja norður.