135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands.

370. mál
[14:22]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum. Birki Jóni Jónssyni og Álfheiði Ingadóttur fyrir stuðning í orði og verki við málefni og störf Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar þarf svo sannarlega að vinna betur að því að fá fjármagn til rekstrar og til grunnverkefna hjá stofnuninni. Ég geri mér fulla grein fyrir því og mun berjast fyrir því í fjárlagagerð næsta árs og næstu ára á meðan ég hef tök á því sem umhverfisráðherra.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði um að hringla í stóru húsnæði. Við sitjum í rauninni uppi með þá ákvörðun að leigunni var útvistað með þeim hætti sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi og gerður var langur samningur til áratuga. Sá samningur hefur ekki létt rekstur Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það verður að segjast eins og er. Auðvitað væri miklu betra að þarna væri maður í hverju rými og að húsnæðið væri fullnýtt. Þannig er það því miður ekki en við verðum auðvitað að vinna úr stöðunni eins og hún er og ég vænti þess að í vinnunni fram undan og í fjárlagagerð og í fjárlaganefnd næsta haust hafi verkefni og málefni Náttúrufræðistofnunar Íslands aukinn og meiri skilning meðal hv. þingmanna.