135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

embætti umboðsmanns aldraðra.

396. mál
[14:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra um það hvort ráðherrann hyggist beita sér fyrir stofnun embættis umboðsmanns aldraðra. Ef svo er, hvenær má búast við að af því verði?

Fyrirspurn mín er tilkomin út af því að í aðdraganda síðustu kosninga voru málefni aldraðra mjög til umræðu hjá íslenskum stjórnmálaflokkum enda voru menn almennt sammála um að þar mætti bæta verulega úr í ýmsum mikilvægum málaflokkum. Samfylkingin setti það á oddinn í kosningabaráttu sinni að stofnað yrði embætti umboðsmanns aldraðra og fleiri frambjóðendur annarra flokka mæltu einnig svo fyrir um. Sá málflutningur hlaut mikinn stuðning sérstaklega úr röðum eldri borgara. Núna þegar málaflokkur aldraðra er í raun kominn yfir til Samfylkingarinnar og hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, fannst mér vert að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvenær eða hvort hún hyggist beita sér fyrir stofnun þessa embættis, því að að mínu mati væri rétt að feta þá braut að aldraðir hefðu umboðsmann eða talsmann í samfélaginu. Til er talsmaður neytenda og talsmaður barna og ég tel að aldraðir þurfi opinberan talsmann sem fylgist með málefnalegum hætti með réttindum og kjörum þeirra, því að eins og ég sagði áðan er það endalaust úrlausnarefni stjórnmálanna að bæta kjör og kannski ekki síst réttindi þessa þjóðfélagshóps. Við getum til að mynda horft til húsnæðismála þessa hóps, til lífeyrismála og tryggingamála og svo mætti áfram nefna.

Spurningin er stutt og laggóð: Hyggst hæstv. ráðherra beita sér fyrir því á næstunni að embætti umboðsmanns aldraðra verði stofnað í íslenskri stjórnsýslu?