135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

hagkvæmni og gæði í heilbrigðisþjónustu.

363. mál
[14:41]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Reykv. s. hefur beint til mín eftirfarandi spurningum:

1. Hve stórum hluta heilbrigðisþjónustunnar er sinnt af öðrum en opinberum aðilum, miðað við fjárveitingar í fjárlögum, að meðtöldum fjárveitingum til sjúkratrygginga? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um helstu greinar heilbrigðisþjónustu, þ.e. heilsugæslu að meðtöldum heimilislækningum og heimahjúkrun, endurhæfingu, sjúkrahúsþjónustu, öldrunarþjónustu og tannlækningum. Þeir sem veita heilbrigðisþjónustu á Íslandi aðrir en opinberir aðilar eru félagasamtök, sjálfseignarstofnanir, einkafyrirtæki og sjálfstætt starfandi sérfræðingar, hér eftir nefndir einkaaðilar til aðgreiningar frá opinberum aðilum. Í svarinu er eingöngu miðað við kostnað við að veita heilbrigðisþjónustu og er kostnaður við stjórnsýslu- og eftirlitsstofnanir ekki með talinn.

(Forseti (EMS): Forseti vill vekja athygli hæstv. ráðherra á því að það virðist vera að hæstv. ráðherra sé að svara fyrirspurn sem er á dagskrá á eftir.)

Virðulegi forseti. Það er ekki gott.

(Forseti (EMS): Það væri kannski betra ef hæstv. ráðherra vildi svara fyrirspurninni sem hv. þingmaður beindi til hans rétt áðan.)

Já, ef virðulegi forseti leyfir mér að sækja svarið þá er það bara sjálfsagt.

(Forseti (EMS): Það er sjálfsagt, hæstv. ráðherra.)

Virðulegi forseti. Ég hef mér kannski til málsbóta að samkvæmt þeirri dagskrá sem dreift var hér átti ég að byrja á þessari spurningu sem ég var að svara núna. Það er hins vegar ekkert mál að breyta til en virðulegi forseti gefur mér kannski dálítinn sveigjanleika á tímanum ef ég hleyp eitthvað fram yfir hann.

Ég hef fengið spurningu frá hv. þm. Ástu Möller og spurningin er svona:

1. Hafa athuganir á heilbrigðisþjónustu opinberra aðila annars vegar og einkaaðila, félagasamtaka og sjálfseignarstofnana hins vegar sýnt fram á mismun á gæðum þjónustunnar? Því er til að svara að landlæknisembættið hefur lögum samkvæmt það hlutverk að efla gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og hafa eftirlit með henni. Til þess að sinna þessu hlutverki gefur embættið út m.a. tilmæli, viðmið og leiðbeiningar, fylgist með því að faglegar kröfur hvarvetna í heilbrigðisþjónustunni séu uppfylltar og hefur eftirlit með heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki. Eitt af hlutverkum landlæknisembættisins er að hafa eftirlit með starfsemi heilbrigðisstofnana og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Unnið hefur verið að því að gera þetta eftirlit markvissara og skipulagðara. Við úttekt á heilbrigðisstofnunum eru notaðar kannanir meðal notenda heilbrigðisþjónustunnar, stjórnenda og starfsfólks. Einnig er farið í fyrirliggjandi tölulegar upplýsingar, kvartanir og kærur og þar að auki eru stofnanir heimsóttar. Í þeim athugunum sem landlæknisembættið hefur staðið fyrir á undanförnum árum hefur ekki komið fram munur á gæðum heilbrigðisþjónustu, hvort sem um er að ræða heilbrigðisþjónustu opinberra aðila eða einkaaðila, félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Þess ber þó að geta að kannanir landlæknisembættisins hafa enn sem komið er fyrst og fremst beinst að hverri stofnun fyrir sig fremur en samanburði við aðra aðila á sama starfssviði. Viðhorfskannanir sem gerðar hafa verið meðal notenda heilsugæslunnar benda til þess að þeir séu almennt ánægðir með þjónustuna og enn frekar með þjónustu sem veitt er af einkaaðilum eins og hv. þm. Ásta Möller rakti í sinni fyrirspurn.

2. Hafa niðurstöður athugana leitt í ljós mismun á fjárhagslegri hagkvæmni í rekstri einstakra þátta heilbrigðisþjónustu eftir rekstrarformi, að teknu tilliti til langtímakostnaðar við fjármögnun fasteigna, tækja og annars búnaðar? Því er til að svara, virðulegi forseti, að víðtækar rannsóknir á fjárhagslegri hagkvæmni einstakra þátta heilbrigðisþjónustu eftir rekstrarformið liggi ekki fyrir hér á landi. Fyrir fáeinum árum gerði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt á rekstri heilsugæslunnar í Reykjavík þar sem borinn er saman einingakostnaður vegna almennrar þjónustu heilsugæslulækna hjá Heilsugæslunni í Reykjavík og hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum. Á þeim tíma var kostnaður á hverja einingu nokkru hærri hjá heilsugæslunni en hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum. Við skoðun ráðuneytisins á þjónustu heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu bendir ekkert til annars en að hagkvæmt sé fyrir hið opinbera að gera samninga við einkaaðila um veitingu þjónustu í heilsugæslu hvort sem litið er til gæða eða rekstrarþátta.

3. Hvaða áætlanir eru um samanburð á gæðum og hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu í opinberum rekstri annars vegar og á vegum annarra aðila hins vegar?

Samkvæmt stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda í gæðamálum er áformað að koma á fót heildstæðu árangursmatsferli á öllum heilbrigðisstofnunum landsins og því ætti að reynast auðveldara að bera saman gæði þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er af mismunandi aðilum á næstu árum. Ný stofnun sjúkratrygginga sem tekur til starfa 1. september 2008 mun sjá um kaup og greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu út frá ákveðnum gæða-, árangurs- og kostnaðarviðmiðunum. Stofnuninni er ætlað að tryggja að magn, gæði og kostnaður séu í samræmi við gerða samninga, hvort sem um er að ræða opinberan rekstur eða einkarekstur. Þannig mun er fram líða stundir verða mögulegt að fá góðan samanburð og hagkvæmni og gæði rekstrar með tilliti til þess á hvers hendi hann er.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessar upplýsingar veiti svör við fyrirspurn hv. þingmanns.