135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

hagkvæmni og gæði í heilbrigðisþjónustu.

363. mál
[14:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svör hans og hv. þingmönnum þátttökuna í þessari umræðu. En það sem er ánægjulegt í svörum hæstv. ráðherra er að hann staðfestir að gæði þjónustu á einkareknum stofnunum eru ekki síðri en hjá ríkisreknum stofnunum. Hann benti jafnframt á að gera þarf betri athuganir í þá veru. Hann staðfestir jafnframt að rekstrarhagkvæmni er betri en annars staðar.

Ég tók líka eftir umræddri frétt í Morgunblaðinu eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir þar sem fram kom að heilsugæsla í einkarekstri er hagkvæmari en heilsugæsla í ríkisrekstri. Ég hlakka til að sjá þessa skýrslu sem hann vísar í í Morgunblaðinu . (Gripið fram í.) Þessa skýrslu sá ég í Morgunblaðinu .

En það er alveg ljóst að hv. þingmenn vinstri grænna þurfa ekki að hræðast sporin, það er alveg óhætt að halda áfram á þessari braut. Við veitum góða þjónustu hvort heldur er í ríkisrekstri eða einkarekstri. Einkareksturinn virðist hagkvæmari að einhverju leyti og gæðin eru mikil.

Mér finnst hins vegar dálítið sérkennilegt að hlusta á hv. þingmenn Framsóknarflokksins þegar þeir tala í þessa veru. Framsóknarflokkurinn hélt utan um heilbrigðismálin síðustu átta ár. Þeir stigu ákveðin skref í þá átt sem við höfum verið að ræða hér. Þeir gerðu samninga við Sóltún. Þeir gerðu samninga um Salahverfið. Ég skil ekki af hverju hv. framsóknarmenn vilja afneita þeim ágætu skrefum sem þeir þó stigu í þessa átt. Það hljóta að renna á þá tvær grímur þegar fram koma upplýsingar um að ágætlega er að þessu staðið, allt vel undirbúið. Þeir mega vera stoltir af því sem þeir hafa gert þó að skrefin hafi ekki verið stór.