135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

kostnaðarþátttaka ríkis vegna fæðinga.

391. mál
[15:22]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki J. Jónssyni fyrir ágætisfyrirspurn. Hér hafa farið fram góð orðaskipti um þessi mál. Ég held að ég og þingheimur allur séum sammála um að stærsta einstaka málið er að við höfum aðgang að þessari þjónustu óháð efnahag og að gæði hennar séu eins mikil og möguleg eru. Það er ánægjulegt að segja frá því að þegar við berum okkur saman við önnur lönd að þá er ungbarnadauði minnstur hér á landi. Ég verð að gangast við því, virðulegi forseti, að mér finnst það mikilvægast.

Vitanlega er í mörg horn að líta þegar að þessum málum kemur. En gæði heilbrigðisþjónustunnar finnast mér stærsta einstaka málið. Sem betur fer höfum við náð árangri þar og við þurfum að viðhalda því.

Eins og hv. þingmaður nefndi er komið til móts við fólk með ákveðnum hætti varðandi ferðakostnað og í raun, þegar kemur almennt að barnafjölskyldum, erum við með fæðingarorlof sem eftir er tekið annars staðar. Það hjálpar svo sannarlega því fólki sem tekur þá gleðilegu ákvörðun að fjölga mannkyninu og stofna fjölskyldu. En ekkert er óbreytanlegt og sjálfsagt er að líta á alla þessa þætti. Ég lít bara á þessa fyrirspurn og þessa umræðu sem málefnalegt innlegg í þá umræðu.

Hins vegar held ég að við eigum líka að hafa í huga að sem betur fer, og við ættum kannski að tala meira um það, höfum við aðgang að frábærri þjónustu, frábæru starfsfólki sem hefur náð gríðargóðum árangri. Það er mikilvægast en auðvitað er sjálfsagt að skoða alla þætti, m.a. þá sem hv. þingmaður nefndi.