135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

gjaldtaka tannlækna.

419. mál
[15:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen) (S):

Hávirðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. heilbrigðisráðherra er um hvernig háttað sé gjaldtöku tannlækna sem Tryggingastofnun tekur þátt í og um hve háar fjárhæðir er að ræða.

Einnig spyr ég hvort það sé rétt að allt að 140% munur sé á gjaldskrá tannlækna samkvæmt reikningum til Tryggingastofnunar.

Í þriðja lagi spyr ég hvort unnið sé að því að fá þessa þjónustu á samningsverði fyrir Tryggingastofnun.

Í fjórða lagi: Telur ráðherra eðlilegt að fólk þurfi að leita tilboða hjá tannlæknum vegna mikils munar á gjaldskrám þeirra?

Það er ljóst að framlag hins opinbera til tannlæknaþjónustu hefur minnkað um árabil. Á árunum 1991–2003 lækkaði framlagið um 33% sem laut að endurgreiðslu. Það er líka ljóst að aðsókn yngri barna til tannlækna hefur minnkað verulega. Í raun er svo komið að fólk er ruglað í ríminu. Þorri fólks heldur að gjaldskrá tannlækna sé hin sama hjá öllum en hún er frjáls. Það er fólki ekki kunnugt um. Þess vegna fer fólk yfirleitt í blindni til fyrsta tannlæknis og óskar eftir því að gengið sé til verka.

Til eru mörg dæmi. Ég get nefnt að foreldrar fóru með tvö börn sín til þriggja tannlækna og óskuðu tilboða. Það munaði 300 þús. kr. á kostnaði við tannviðgerðir hjá þessum tveimur börnum. Það sýnir að alvara málsins er gríðarleg. Auðvitað skiptir verulega miklu máli að velta fyrir sér hvort það sé ekki grundvallaratriði að semja við lækna, leita leiða til að sama verði gildi, samningsverð fyrir Tryggingastofnun. Í öðru lagi kann að vera nauðsynlegt að heimila læknum að auglýsa þjónustu sína, sem þeim er bannað í dag, til þess að vekja athygli á því að það er ekki sama til hvers er leitað.

Þetta getur numið fjárhæðum fyrir fólkið í landinu. Þetta ástand ógnar tannheilsu og þróun í þeim efnum og árangri. Þess vegna er fyrirspurn minni beint til hæstv. heilbrigðisráðherra.