135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

gjaldtaka tannlækna.

419. mál
[15:34]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta var sannarlega svört skýrsla sem hæstv. ráðherra flutti þingheimi í tilefni mjög tímabærrar fyrirspurnar frá hv. þm. Árna Johnsen. Ég saknaði þess hins vegar að ekki kom fram í máli ráðherrans neitt mat á þeirri stöðu sem uppi er í þessum efnum, einungis það að engar viðræður væru í gangi. Skýrslan er svört en hún er í rauninni lýsing á því óska- og gósenlandi sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins lýstu hér fyrr í dag þegar þeir töluðu um hve mikilvægt væri að fá einkareksturinn og einkaaðilana í heilbrigðisþjónustuna. Hér er réttilega, eins og ráðherrann orðaði það, um að ræða læknisþjónustu sem lýtur öllum lögmálum markaðarins. Hver er afleiðingin? Verðið hækkar og hækkar og fólk sem ekki hefur mikið handa á milli hefur ekki lengur efni á því að kaupa þjónustuna. Við viljum vara við því að þessi hugsun leiðist inn í aðrar greinar læknisfræðinnar.