135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

gjaldtaka tannlækna.

419. mál
[15:39]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Hún er mjög þörf og tekur á mjög mikilvægu máli eins og kom fram í máli hans og flestra annarra sem hér töluðu. Það liggur fyrir að það er vilji þess sem hér stendur og vilji ríkisstjórnarinnar að reyna að ná samningum við tannlækna. En eðli málsins samkvæmt eru þetta viðkvæm mál og það er betra að segja minna en meira í því. Eins og fram hefur komið er mjög langt síðan samningar voru í gildi en það er til mikils að vinna að ná þeim. Það er einn þáttur málsins.

Það er hárrétt, sem fram kom hjá hv. þm. Árna Johnsen, að það borgar sig fyrir fólk, og enginn skyldi vanmeta það, að leita tilboða. Að sjálfsögðu á líka að umbuna þeim aðilum sem svo sannarlega veita góða þjónustu á hagstæðu verði. Það segir sig sjálft að það er mjög æskilegt.

Virðulegi forseti. Í þessu máli hef ég mestar áhyggjur af ákveðnum áhættuhópum og þá sérstaklega börnum. Við höfum verið að skoða það sérstaklega í ráðuneytinu hvernig við getum komið til móts við þá hópa. Mér finnst það vera stærsta einstaka málið þó að allt málið sé mikilvægt. Ekki þarf að fara mörgum orðum um að ekki er rétt gefið þegar börn lenda í því að vera með verri tannheilsu en ástæða er til — margir fletir eru á því máli sem komu t.d. fram varðandi svæfingu hjá börnum með miklar tannskemmdir og ýmislegt annað. Í þessu er í mörg horn að líta. Við höfum verið að skoða þetta í ráðuneytinu og við erum svo sannarlega ekki hætt. Á þessu stigi erum við ekki í þeirri stöðu að geta verið með stórar yfirlýsingar en við skulum sjá til. Í það minnsta vantar ekki viljann og við skulum sjá hvað við komumst langt með þetta mikilvæga mál.