135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

tæknifrjóvganir.

433. mál
[15:46]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hv. heilbrigðisnefnd hefur afgreitt frumvarp um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun til 3. umr. en það varðar þó fyrst og fremst heimildir til að nota umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna.

Mig langar að nota þetta tækifæri til að vekja athygli á ákveðnum þáttum í nefndaráliti hv. heilbrigðisnefndar með frumvarpinu en þar leggur hún áherslu á að endurskoðun á lögum um tæknifrjóvgun hvað varðar tæknifrjóvgunina sjálfa verði hraðað og það kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan að það komi fram um eða eftir páska.

Með leyfi forseta langar mig til að vitna í niðurlag nefndarálitsins. Þar er hvatt til þess að í heildarendurskoðuninni verði m.a. skoðaðir möguleikar einstæðra kvenna og kvenna með sérstæða sjúkdóma til að gangast undir tæknifrjóvgunaraðgerð. Einnig komi til álita endurskoðun á aldursmörkum kvenna við tæknifrjóvgun, geymslutíma fósturvísa, skilyrðum um lengd sambúðar og staðgöngumæður vegna kvenna sem hafa sökum veikinda misst legið. Ég vil vekja sérstaka athygli á því síðastnefnda.