135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

tæknifrjóvganir.

433. mál
[15:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get komið með bros á vör í ræðustól í síðari innkomu minni því að hæstv. ráðherra gefur okkur sannarlega ástæðu til að vera bjartsýn um að nú hilli undir lausn í þessum efnum. Ef hæstv. ráðherra kemur til með að geta fært fram niðurstöðu nefndarinnar á þeim nótum sem hann talaði um í ræðustólnum áðan strax eftir páska þá sé ég ekki annað en með lengdu þingi ættum við að geta skutlað í gegn máli á vorþinginu og þá verði heilbrigðisnefnd, hæstv. ráðherra og mér sjálfri og kannski flestum eða öllum sem í þessum sal sitja að óskum okkar. Mér þykja þetta mjög góð tíðindi því að það er auðvitað ekki viðunandi að einstæðar konur búi við það að geta ættleitt börn en geti ekki leitað til sérfræðinga sem annast tæknifrjóvganir á grundvelli þess að reglurnar séu ónógar, þær nái ekki yfir þessar konur.

Ég kveð ræðustólinn að þessu sinni með bros á vör og þakka hæstv. ráðherra fyrir skemmtileg svör.