135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

kræklingarækt.

382. mál
[15:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um kræklingarækt. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hvað hafa stjórnvöld gert til að styðja við kræklingarækt í landinu?

2. Telur ráðherra að það séu vaxtarmöguleikar í greininni?

Eins og allir þekkja hefur landsbyggðin átt í vök að verjast í atvinnumálum og margir hafa áhuga á að reyna að auka fjölbreytileikann í atvinnulífinu en með aukinni tæknivæðingu hefur störfum í sjávarútvegi einnig fækkað.

Þó nokkur ár eru síðan íslenskir frumkvöðlar og kraftmikið fólk hóf kræklingarækt, í smáum stíl til að byrja með en á seinni árum hefur frekar ræst úr og það er óhætt að segja að það sé orðið um atvinnurekstur að ræða í þessu sambandi. Reynsla mín er sú, eftir að hafa fylgst með þessu máli og ekki síst sem ráðherra byggðamála á sínum tíma, að stjórnvöld hafa ekki sinnt þessari nýju atvinnugrein nægilega vel og kannski ekki sýnt henni nægilega mikinn áhuga lengi vel. Nú er kominn nýr ráðherra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og því er forvitnilegt að vita hvort hann hefur áhuga á þessu máli og hvort hann ætlar að standa sig gagnvart þessari grein ef á aðstoð þarf að halda.

Samstarf hefur verið haft, t.d. í Eyjafirðinum þar sem ég þekki best til, við Kanadamenn sem er náttúrlega mjög mikilvægt en í Kanada er gríðarleg framleiðsla á bláskel. Á Prince Edward-eyju er verið að framleiða 20 þúsund tonn sem er ekkert smáræði og svæðið sem notað er þar er bara á stærð við það svæði sem nýtt er í Eyjafirðinum. Áform Norðurskeljar, sem er fyrirtæki í Hrísey, eru þau að vera komin upp í 1.000 tonn á árinu 2010 sem er í sjálfu sér kannski ekki mikið miðað við það sem þarna er um að ræða en þetta eru upplýsingar sem ég hef undir höndum.

Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að heyra hvað hæstv. ráðherra segir í þessu sambandi og hver svör hans verða, því að ég er sannfærð um að þetta er eitt af því sem horfa þarf á af alvöru og reyna að sjá til þess að þar sem aðstæður eru fyrir hendi sé þessi möguleiki nýttur til að auka verðmæti sjávarfangs og eins til að skapa störf.