135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

kræklingarækt.

382. mál
[15:55]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær spurningar sem hv. þingmaður lagði fyrir mig en sú fyrri hljóðar svo: „Hvað hafa stjórnvöld gert til að styðja við kræklingarækt í landinu?“

Styrkir úr ríkissjóði hafa verið á árunum 2000–2005 um 3 millj. kr. á ári til starfrækslu svokallaðs kræklingaverkefnis. Fyrstu árin var styrkurinn eyrnamerktur kræklingaverkefninu í fjárlögum en síðustu árin var hann inni í heildarfjármagni til stofnunarinnar.

Á árinu 2002 voru veittar af fjárlögum 5 millj. kr. til Samtaka íslenskra kræklingaræktenda sem nú kallast Skelrækt, landssamband skelræktenda. Þar af fóru 1,5 millj. kr. beint til samtakanna en 3,5 millj. kr. voru veittar til verkefna gegnum AVS-sjóðinn. Ríkissjóður hefur að auki veitt fé frá árinu 2005 til að framkvæma heilnæmiskannanir á ræktunarsvæðum kræklings, m.a. vegna eftirlits með eitruðum þörungum. Á fjárlögum þessa árs eru þannig veittar 3 millj. kr. til rannsókna á ræktunarsvæðum kræklings og veiðisvæðum kúfisks. Á fjárlögum í ár er að auki veittur 2 millj. kr. styrkur til Skelræktar, landssambands skelræktenda.

AVS-sjóðurinn hefur styrkt tvö smáverkefni samtals upp á 1,5 millj. kr. Hér er um að ræða verkefnin Ráðstefna um sóknarfæri og framtíðarhorfur skelræktar á Íslandi og Þróun kræklingaræktar: námskeið og ráðstefna 2005. Þá hefur Framleiðnisjóður landbúnaðarins einnig veitt styrki til kræklingaræktarinnar um 8 millj. kr. á árunum 2000–2003. Þeir fjármunir fóru að mestu til Veiðimálastofnunar sem vann verkefnið í samstarfi við kræklingaræktendur. Impra hefur og styrkt nokkur verkefni kræklingaræktenda en þar er um að ræða tiltölulega litlar upphæðir. Mér sýnist að þegar allt er til tekið af þessum tölum geti verið um að ræða stuðning upp á rúmlega 30 millj. kr. en auk þess hafa ýmsar stofnanir ríkisins verið að leggja þessu máli lið með vinnuframlagi sem ekki er tekið til þarna.

Hv. þingmaður spyr í öðru lagi: „Telur ráðherra að það séu vaxtarmöguleikar í greininni?“

Svar mitt er já. Ég tel að þeir möguleikar séu til staðar en það er í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum að það er alls ekki á vísan að róa og menn verða að átta sig á að hér eru margir þröskuldar sem fara þarf yfir. Ég hef sjálfur setið fundi og ráðstefnur um þessi mál, m.a. mjög merka ráðstefnu á Akureyri að ég hygg í fyrra þar sem þessi mál voru rædd og reifuð út frá mörgum sjónarhólum. Það er ekki spurning að þetta er áhugavert verkefni sem ástæða er fyrir þá sem vilja hasla sér völl á þessu sviði að gefa rækilegan gaum. Ég tel þess vegna að við eigum að veita þessu máli fyllstu athygli.

Í framhaldi af þessu ákvað ég 5. desember í fyrra að skipa nefnd til að kanna stöðu og möguleika kræklingaræktar á Íslandi með tilliti til líffræðilegra og rekstrarlegra forsendna greinarinnar og umhverfisþátta. Nefndinni er ætlað að skila greinargerð til ráðherra og koma jafnframt með tillögur að þeim aðgerðum sem hægt væri að grípa til hjá hinu opinbera til að treysta almennar vaxtarforsendur greinarinnar. Ég legg áherslu á að það er komin mikil reynsla innan lands af þessum frumbýlingsverkefnum. Hv. þingmaður nefndi verkefnið í Eyjafirði og það er auðvitað ljóst að þar hafa menn náð langsamlega lengst. Þar er stærsta eða voldugasta kræklingaræktin í landinu. Kræklingarækt er að vísu stunduð víðar um landið og það er vaxandi áhugi á henni, mjög margir eru að hasla sér völl í þessum efnum núna. Um síðustu helgi heyrði ég af slíkum fyrirætlunum og verkefnum í Húnaflóanum. Það er líka mjög mikilvægt og það er t.d. mat þeirra kanadísku sérfræðinga sem hingað hafa komið að það skipti mjög miklu máli í sambandi við þessa ræktun að hún fari fram víða við landið, að hún sé ekki bara á einum stað. Það er t.d. sjúkdómahætta, það hefur komið fyrir að skollið hafa á vond veður sem hafa eyðilagt slíka ræktun. Þess vegna er afar mikilvægt ef þetta á að verða að veruleika að þessi ræktun geti farið fram víðar við landið.

Kjarni málsins er að mínu mati sá að þetta er verkefni sem þarf fyrst og fremst að drífa áfram fyrir atbeina þeirra einstaklinga sem þarna starfa. Ríkisvaldið getur auðvitað lagt fram fjármagn til aðstoðar við uppbyggingu í upphafi og getur greitt fyrir hlutum. (Gripið fram í.) Það þarf að fara fram vöktun í fjörðunum svo dæmi sé tekið og byggðamálaráðherra gæti t.d. komið að því. Ég tek eftir að Impra, sem undir hann heyrir og heyrði undir hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, ég hef upplýsingar um að Impra hafi einungis styrkt þetta um tiltölulega litlar upphæðir og gæti verið hvatning í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að við erum með alvöruvinnu í gangi núna undir formennsku Hauks Oddssonar, framkvæmdastjóra og verkfræðings, sem ættaður er frá Ísafirði, sem er að fara mjög vel yfir þessi mál. Ég bind vonir við starf þessarar nefndar sem gæti þá skýrt betur fyrir okkur með hvaða hætti ríkisvaldið getur komið að því að örva þessa atvinnustarfsemi.