135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

kræklingarækt.

382. mál
[16:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki svo miklu við að bæta. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir það að hafa svarað mér eins og hann gerði. Það eykur bjartsýni mína á að um alvörustarf verði að ræða, eins og hann orðaði það nú sjálfur, og að þessi atvinnugrein geti átt framtíð.

Ég tel að þeir sem hafa stundað þetta hafi unnið gríðarlegt frumkvöðlastarf og sýnt mikla seiglu því þetta hefur ekki alltaf verið dans á rósum. En nú tel ég að menn hafi náð það góðum tökum á ræktuninni að við getum verið bjartsýn á að þessi atvinnugrein verði stunduð víðar við landið þótt það fari eftir aðstæðum á hverjum stað.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til dáða og vonast til að við getum talað um þessa atvinnugrein aftur eftir eitt eða tvö ár og verðum þá komin lengra og þá verði framleiðslan talsvert meiri.