135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:36]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að á fundi okkar þingflokksformanna í gær þar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri grænna var viðstaddur, var ákveðið hvaða utandagskrárumræða skyldi fara fram í dag. Í fullri sátt við hv. þm. Ögmund Jónasson voru þær utandagskrárumræður ákveðnar. Það kom svo í ljós síðar um daginn að ekki gat orðið af þeim umræðum. En á fundi okkar þingflokksformanna í gær var lagði hv. þm. Ögmundur Jónasson ekki ríka áherslu á að taka upp þá umræðu sem hann nefnir í dag. Á þeim lista sem við erum með hér eru einar átta beiðnir um utandagskrárumræður. Okkur hefði auðvitað verið í lófa lagið að kanna það fyrri hluta dags í gær hvort hægt væri að taka upp umræðu um málið en þessar áherslur voru sem sagt ekki uppi á fundi okkar þingflokksformanna í gær frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Eins og fram kom í máli hans var þetta auðvitað rætt í fyrirspurnatíma í gær þannig að það er ekki eins og hæstv. heilbrigðisráðherra sé eitthvað að reyna að skjóta sér undan þeirri umræðu, síður en svo, (ÖJ: Jú.) síður en svo. Þessi mál voru rædd hér í hefðbundnum fyrirspurnatíma en svo sannarlega liggur þessi ósk fyrir. Þegar það passar bæði (Forseti hringir.) hv. þm. Ögmundi Jónassyni og hæstv. heilbrigðisráðherra þá verður þessi umræða tekin upp hér, að sjálfsögðu, eins og allar þær umræður eru teknar eftir því (Forseti hringir.) sem þær raða sér inn í þingstörfum. (Gripið fram í.)