135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:56]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hver vill kaupa Kárahnjúka? Ég er ansi hrædd um að það hlaupi ekki margir fram á völlinn, ekki frekar en þegar reynt var að falast eftir því á sínum tíma að lífeyrissjóðir og aðrir fjármagnseigendur í landinu kæmu þar að. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Það var vegna þess að arðsemin, eins og hv. þingmaður sagði, var metin á 11,3%.

Nú segir Landsvirkjun á blaðamannafundi 22. janúar síðastliðinn að arðsemin verði 13,4%. Á hverju skyldi það byggjast? Skyldi það byggjast á spám viðurkenndra aðila með þekkingu á álmarkaði eins og CRU og King, líkt og þegar ákvörðun var tekin um framkvæmdina og þessi 11,2% byggja á? Nei, þar er byggt á Capacent Gallup. Ég hef ekki orðið vör við að þeir hafi verið fyrirferðarmiklir á álmörkuðum hingað til (Gripið fram í.) eða þekki þar mikið til. Í þessu seinna arðsemismati er miðað við einn topp og hann framreiknaður. Það eru nú allar kúnstirnar. Capacent Gallup segir að þetta sé bara ansi fínt hjá Landsvirkjun og nú kemur hv. þm. Pétur Blöndal og tekur undir það.

Tveir virtir hagfræðingar hafa gert lítið úr þessu arðsemismati og sagt að jafnlítið sé að marka það eins og hið fyrra. Hvaða sérfræðingar eru það? Það eru þeir Þorsteinn Siglaugsson og Sigurður Jóhannesson, hagfræðingar, sem fóru yfir þetta nýja arðsemismat fyrir Viðskiptablaðið í kjölfar fréttamannafundarins sem hæstv. ráðherra endurprentaði og dreifði á þingskjali. Þetta er ekkert annað en áróðursplagg frá Landsvirkjun, enn eitt dæmið um hvernig á að blekkja þjóðina til að falla fram og kalla á fleiri álver og meiri náttúruspjöll. Það er það sem er að gerast á Suðurnesjunum og það á að gerast fyrir norðan.