135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[11:00]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir að vekja athygli á því áhugaverða máli að sú skilgreining, störf án staðsetningar, sem Samfylkingin boðaði í aðdraganda síðustu kosninga virðist virka þannig að störf eru flutt frá landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið eins og nýleg auglýsing um ráðningu forstöðumanns Vatnajökulsþjóðgarðs sýnir. Við höfum önnur dæmi: Lýðheilsustöð hefur sagt upp samstarfssamningi við Háskólann á Akureyri. Búið er að segja upp forstöðumanni veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar sem var staðsettur á Akureyri og flytja þá stöðu suður til Reykjavíkur. Það er því eðlilegt að við veltum því hér upp hver raunveruleg byggðastefna ríkisstjórnarinnar sé.

Hvað varð um Fagra Ísland Samfylkingarinnar sem kynnt var í aðdraganda síðustu kosninga og stóriðjustoppið sem Samfylkingin ætlaði að standa fyrir? Hvað hefur orðið um yfirlýsingar hæstv. ráðherra, Kristjáns Möllers, og hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar í þá veru að ef nýtt álver yrði sett af stað væri Samfylkingin á því að það ætti að vera á Húsavík? (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Að sjálfsögðu, segir hv. þingmaður. Heyrir hv. þingmaður ekki hvað er að gerast í samfélaginu? Sjálfstæðismenn skála í kampavíni yfir þeirri forgangsröðun að nýtt álver skuli reist á Reykjanesi meðan álver á Bakka við Húsavík er í algerri óvissu. Reyndar er það svo, hæstv. forseti, að hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að hún sé beinlínis á móti því að álver rísi á Bakka við Húsavík.

Samfylkingin hefur bókstaflega hent kosningaloforðum sínum á haugana og málefnastaða þess flokks er engin. Menn eru hættir að hlusta á yfirlýsingar samfylkingarmanna. Þær eru svo viðamiklar í mörgum málaflokkum að fólk er hætt að taka mark á málflutningi þeirra. (Forseti hringir.) Hvað hefur hæstv. viðskiptaráðherra t.d. lofað þjóðinni því oft að stimpilgjöld yrðu afnumin? Hvað hefur hann lofað því oft? En ekkert bólar á neinum aðgerðum í þeim efnum.