135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[11:06]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tala fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum. Þetta er nefndarálit frá félags- og tryggingamálanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sturlaug Tómasson frá félags- og tryggingamálaráðuneyti og Sigríði Lillý Baldursdóttur og Ágúst Þór Sigurðsson frá Tryggingastofnun ríkisins. Einnig hafa nefndinni borist sjö umsagnir um málið.

Hinn 1. janúar sl. fluttust málefni aldraðra og almannatryggingar frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis, sbr. lög nr. 109/2007, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969. Frumvarp þetta er í meginatriðum byggt á tillögum verkefnisstjórnar sem skipuð var af félags- og tryggingamálaráðherra og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrstu aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja frá 5. desember 2007. Verkefnisstjórnin sem skipuð var vinnur áfram að heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar og á að skila tillögum 1. nóvember nk.

Í frumvarpinu er kveðið á um að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára verði hækkað í 100 þús. kr. á mánuði. Megintilgangur þess er að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku og gera ellilífeyrisþegum kleift að afla sér aukinna tekna af atvinnu án þess að bætur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðist. Í greinargerð með frumvarpinu var gert ráð fyrir að lagðar yrðu fram tillögur sem tryggðu örorkulífeyrisþegum sama frítekjumark eða ígildi þess. Nefndin gerir ráð fyrir að tillögur berist frá örorkumatsnefnd forsætisráðherra á vorþinginu þannig að hægt verði að afgreiða þá lagasetningu fyrir gildistöku 1. júlí nk. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja er kveðið á um að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25 þús. kr. á mánuði frá lífeyrissjóði eða sambærilega réttarbót með öðrum hætti og aftur er miðað við 1. júlí nk. Í verkefnisstjórn félagsmálaráðherra var lagt til að greiðslur þessar yrðu inntar af hendi af hálfu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Ekki er gert ráð fyrir þessum greiðslum í frumvarpinu þar sem lífeyrissjóðir heyra undir fjármálaráðuneyti, sem mun leggja fram sérstakt frumvarp um greiðslurnar. Nefndin telur mikilvægt að þeirri vinnu verði hraðað svo bæta megi stöðu tekjulægstu hópa ellilífeyrisþega í landinu.

Athugasemdir komu fram á fundi nefndarinnar varðandi fjárhæð vasapeninga í 6. gr. frumvarpsins þar sem segir að hún sé allt að 28.951 kr. á mánuði en í greinargerð kemur fram að upphæðin er 36.755 kr. og þetta er skýrt í nefndarálitinu að upphæðin er látin standa í frumvarpinu en er uppreiknuð á hverjum tíma miðað við ákveðnar reglur í reglugerðum þannig að eftir samþykkt frumvarpsins mun þessi upphæð miðað við núverandi reglur verða 36.755 og það er skýrt í nefndarálitinu

Nefndinni bárust ábendingar þess efnis að heppilegra væri að nota orðið „íbúi“ í stað „vistmanns“ í lögunum. Ekki er gerð tillaga um breytingar þar á en óskað eftir að það verði haft í huga við heildarendurskoðun almannatryggingalaganna.

Nefndin gerir einungis tvær orðalagsbreytingar. Annars vegar leggur hún til að orðið „ellilífeyrisþegi“ verði notað í 2. gr. í stað „einstaklings“ til samræmis við orðalag 3. gr. frumvarpsins. Hins vegar telur nefndin rétt að nota orðið „greiðslur“ í stað orðsins „bætur“ í f-lið 1. gr. og f-lið 9. gr. frumvarpsins en þetta er bara spurning um að fara rétt með, þarna er um að ræða greiðslur en ekki bætur.

Nefndin leggur áherslu á að afgreiðslu málsins verði hraðað svo að þau ákvæði frumvarpsins sem taka eiga gildi 1. apríl nk. komi til framkvæmda á réttum tíma. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir þetta rita undirritaður, Guðbjartur Hannesson, formaður félags- og tryggingamálanefndar, Ármann Kr. Ólafsson, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara, Kristinn H. Gunnarsson, Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, Jón Gunnarsson, Valgerður Bjarnadóttir, Árni Johnsen og Birkir J. Jónsson.

Ég fagna því að nefndarmenn lögðust allir á eitt um að afgreiða málið nú fyrir páska. Við bindum vonir við að málið fái umræðu í dag og leitað verði afbrigða þannig að hægt verði að afgreiða það svo að greiðslur samkvæmt frumvarpinu þurfi ekki að bíða og komi til strax núna 1. apríl. Það sem kemur til framkvæmda 1. apríl er afnám skerðingar tryggingabóta vegna tekna maka, aðgerðir sem tengjast of- og vangreiðslu tryggingabóta, það er 90 þús. kr. frítekjumark á fjármagnstekjur og það er sem sagt endurreikningur bóta og vistunarframlags sem koma til framkvæmda 1. apríl. Það er hækkun á vasapeningum íbúa á stofnunum um 30% í þessa tölu sem áður var sagt, 36.755, auk annarra breytinga, svo sem lækkunar skerðingarhlutfalls ellilífeyris úr 30% í 25%.

Þann 1. júlí kemur frítekjumark vegna atvinnutekna 60–70 ára til framkvæmda, það er hækkað í 100 þús. kr. á mánuði en áður hafði verið samþykkt að atvinnutekjur 70 ára og eldri skerði ekki bætur. Fyrir liggur yfirlýsing um að menn muni vinna að því, örorkumatsnefnd forsætisráðuneytis, að tryggja öryrkjum sambærilegar bætur frá og með 1. júlí og þrátt fyrir afgreiðsluna nú munu þær bætur koma inn í þingið og hljóta afgreiðslu. Við treystum að það verði fyrir 1. júlí þannig að bæturnar komi til greiðslu á þeim tíma sem fyrir fram var ákveðinn. Þann 1. júlí koma svo ákvæði um fjárhæð aldurstengdra örorkubóta til framkvæmda, þær eru hækkaðar, og einnig sérstakt 300 þús. kr. frítekjumark á lífeyristekjur örorku- og lífeyrisþega, að þær skerði ekki tekjutryggingarnar, sbr. 5. gr. Þann 1. janúar 2009 verður það svo afnumið að innlausn séreignarsparnaðar skerði lífeyrisgreiðslur.

Í frumvarpinu kemur fram fyrirheit um 25 þús. kr. úr lífeyrissjóði til ellilífeyrisþega — eins og ég gat um áður og kemur fram í nefndarálitinu átti það að koma inn í frumvarpið en það náðist ekki. Fjármálaráðuneytið mun vinna úr því. Fyrst það er afgreitt sem lífeyrissjóðsmál kemur það frá fjármálaráðuneyti og kemur jafnvel ekki til félags- og tryggingamálanefndar heldur fer til efnahags- og skattanefndar.

Ég treysti á að frumvarpið verði afgreitt í dag og fagna þeim bótum sem það færir öldruðum og öryrkjum í landinu. Í umræðunni í nefndinni kom fram að við hefðum gjarnan viljað sá ýmislegt fleira gerast. Við bindum vonir við að tími vinnist og tækifæri til að leiðrétta enn frekar hag þessara hópa því að ekki veitir af. Ég vil færa nefndarmönnum þakkir og ég treysti á að þingið muni hjálpa okkur við að afgreiða málið í dag svo að bætur komi til afgreiðslu 1. apríl.