135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[11:39]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Komið hefur fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að hann hafi mestar áhyggjur af því að þeir sem verst eru settir fái ekkert í þessu frumvarpi. Formaður félagsmálanefndar hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur sagt frá því að tekið verði fyrir annað frumvarp þar sem lífeyrissjóðsmálin heyri undir annað ráðuneyti en félagsmálaráðuneytið.

Hins vegar segir hv. þm. Ögmundur Jónasson að hann hafi mestar áhyggjur af því að þeir sem eru verst settir fái ekkert. Hins vegar fagnar hann því sérstaklega að við skulum afnema alla tekjutengingu við maka. Þar með erum við farin að líta fram hjá því að horfa á fjölskylduna sem einingu, eins og við höfum gert um langt skeið. Þetta þýðir að við aukum bætur til þeirra sem eru í fjölskyldu sem hefur hundruð þúsunda til skiptanna, jafnvel milljónir. Það er búið að afnema allar tekjutengingar þar.

Hv. þingmaður horfir jafnframt til þess hv. að nauðsynlegt sé að koma frítekjumarki á lífeyrissjóðsgreiðslur aldraðra. Þar með er verið að koma frítekjumarki á alla, líka þá best settu og þá sem hafa mest á milli handanna. Mér finnst ákveðin mótsögn í þessu og þess sem hann sagði í síðasta andsvari, að það þyrfti að stýra peningunum til þeirra sem hafa minnst á milli handanna, til þeirra sem eru verst settir.

Það að fagna afnámi tekjutengingar við maka getur þýtt að mjög margir fá tugum þúsunda meira í vasann en áður, fjölskyldur sem hafa hundruð þúsunda og jafnvel milljónir á milli handanna á mánuði. Ef frítekjumark á lífeyrissjóðsgreiðslur aldraðra er hækkað í 300 þús. kr. mun rosalega miklum peningum eytt í að bæta kjör þeirra sem kannski hafa það mjög gott, sem er stór hluti. Þar með er ekki verið að stýra peningunum til þeirra sem (Forseti hringir.) minnst hafa, eins og þingmaðurinn vill eftir því sem ég best skil.