135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[11:44]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu er ég fylgjandi öllu afnámi tekjutenginga og er trúr minni stefnu. Hins vegar er fjármagnið takmarkað og hægt væri að tala um stríðsrekstur eins og hv. þingmaður gerði. En ef við höldum okkur við að tala um peninga í þennan málaflokk þá höfum við ákveðið magn af peningum. Hvernig á að skipta úr þeim potti? Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sagt að hann fagni því sérstaklega að tekjutenging við maka hafi verið afnumin. Það er fínt og ég tek undir það. En þar með segir hann jafnframt að ýmsir í efnamiklum fjölskyldum skuli fá auknar bætur. Það er í raun í anda sjálfstæðisstefnunnar að við horfum á einstaklinginn.

Hins vegar hefur í gegnum tíðina verið horft á fjölskylduna. Ég er að benda á það. Að sama skapi vill hann fá frítekjumarkið sem líka gagnast þeim sem hafa mest á milli handanna. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur hins vegar lagt til að fjármununum sé stýrt til þeirra sem minnst hafa, hvort það á að vera 25 þús. kr., 35 þús. kr. eða 45 þús kr. er í raun aukaatriði í hugmyndafræði hans.

En hans aðferð stýrir peningum til þeirra sem minnst hafa. Því miður eru okkar aðgerðir oft þannig að við eyðum 100 millj. kr. en aðeins 10 millj. kr. fara til þeirra sem verst hafa það í stað þess að taka þessar 100 millj. kr. og stýra þeim öllum beint til þeirra sem verst hafa, eða milljarði eða 10 milljörðum eða hver sem upphæðin er. Það er aðferðin sem hv. þm. Pétur Blöndal vill beita, ekki að eyða peningunum og láta þá njóta þeirra sem mest hafa fyrir, heldur stýra þeim til þeirra sem verst hafa það. Það er hugmyndafræðin.