135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[11:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að stýra peningunum ekki til þeirra sem mest hafa fyrir. Við erum að tala um einstaklinga sem ekki eru með neinar greiðslur úr lífeyrissjóði og fá allt sitt frá almannatryggingum, að þeim séu tryggðar 25 þús. kr. Ég er að vekja athygli á því að eftir að búið er að fara með þá peninga í gegnum skatta og fyrst og fremst skerðingarnar í almannatryggingakerfinu þá er þetta orðið að 8 þús. kr. Ég er að segja að þetta sé ekki endilega skynsamleg eða réttlát ráðstöfun.

Ég tala almennt fyrir tekjujafnandi kerfi í samfélaginu í gegnum skatta. Ég hef hins vegar tekið sérstaklega á málum öryrkja og aldraðra og ef hv. þingmaður hefur hlustað á ræðu mína greindi ég meira að segja á milli þessara hópa, taldi það vera algert mannréttindamál að líta á öryrkja sem einstaklinga en ekki sem fjölskyldueiningu, að þeir ættu að búa við sama rétt sem einstaklingar og atvinnulaus einstaklingur o.s.frv. Á þennan hátt hefur að mínum dómi verið brotið á öryrkjum í ríkari mæli en á öðrum, þó að ég hafi fagnað því að verið sé að stíga þetta skref gagnvart þeim líka en ég geri þarna ákveðinn greinarmun á milli.

Síðan um forgangsröðun í þjóðfélaginu, að við höfum þetta mikla peninga í þessum potti og spurningin sé hvernig við ráðstöfum þeim. Ég er að gagnrýna hve lítið er látið í þennan pott. (Gripið fram í.) Einn pottur, þetta er sami potturinn, þetta eru sömu krónurnar. Eru það eitthvað öðruvísi krónur sem settar eru í Varnarmálastofnun og í NATO-heræfingarnar í sumar? Eru það eitthvað öðruvísi krónur? Eru þær öðruvísi á litinn? Þetta eru nákvæmlega sömu peningarnir sem þarna eru en ég hef grun um (Forseti hringir.) að Sjálfstæðisflokkurinn standi gegn því að félagslega sinnaður félagsmálaráðherra, eins og hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir tvímælalaust er, fái þá peninga sem (Forseti hringir.) hún þarf til að stíga þau skref sem ég styð að verði stigin.