135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[12:46]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram um breytingar á almannatryggingalöggjöfinni. Ekki síður þakka ég umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið og þann skilning sem hún sýnir því að málið nái fram að ganga í tæka tíð, þannig að ákvæðin sem eiga að taka gildi 1. apríl nái því, vegna þess að þetta er síðasti starfsdagur þingsins fyrir páskahlé og við komum ekki saman fyrr en um næstu mánaðamót sem hefði þýtt að ekki hefði verið hægt að láta koma til framkvæmda ýmis ákvæði frumvarpsins eins og makatenginguna, afnám þess að tekjur maka skerði bætur. Fyrir það vil ég þakka.

Sú umræða sem hér hefur farið fram hefur verið gagnleg og sýnir auðvitað þann áhuga sem þingmenn hafa á því að bæta almannatryggingakerfið. Ég hef fullan skilning á því sem hér hefur komið fram í máli manna að þeir hefðu viljað sjá að gengið yrði lengra í þessu máli á þessu stigi, ekki síst í því að bæta kjör lífeyrisþega sem minnst hafa. Í því sambandi vil ég nefna tvennt. Þetta er einungis fyrsti áfanginn í heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu, seinni hlutinn mun eiga sér stað það sem eftir lifir þessa árs og 1. nóvember munum við væntanlega sjá niðurstöðuna af því starfi sem er afar mikilvægt. Breytingarnar sem nú eru gerðar á almannatryggingalögunum miðuðust að því að þær rúmuðust innan þess markmiðs sem menn vilja vinna eftir, þ.e. að sjá einföldun á almannatryggingakerfinu.

Í annan stað vil ég nefna að þær breytingar sem hér eru gerðar eru unnar og settar fram í góðu samkomulagi bæði við samtök aldraðra og samtök lífeyrisþega. Samtök öryrkja vildu fara nokkuð aðrar leiðir en aldraðir varðandi það sem að þeim snýr. Ígildi þess sem átti að ganga til öryrkja og samsvara þá 100 þús. kr. frítekjumarkinu og 25 þús. kr. sem koma eiga úr lífeyrissjóðum var um 1 milljarður kr. Útfærslan á því var unnin í samráði við öryrkja eftir að nefndin skilaði af sér og það sem þeir lögðu til að kæmi var að þeir fengju 25 þús. kr. frítekjumark á greiðslur úr lífeyrissjóðum sem kostaði um 800 millj. og þá voru 200 millj. eftir sem þeir lögðu áherslu á að bættust við aldurstengdu örorkuna og það er skýringin á 200 milljónunum. Þetta var unnið í fullu samráði við öryrkja.

Ég vil líka geta þess af því að menn hafa verið að tala um aldurstengdu örorkuna að það eru nokkuð skiptar skoðanir um hana og ég hef orðið vör við það í hópi öryrkja að margir vilja sjá að það komi eitthvað í staðinn fyrir það í þeirri nefnd sem er að skoða breytingar á örorkumatskerfinu og starfsendurhæfingunni.

Af því að hér var bent á að ekki hefði verið haldinn fundur í örorkumatsnefnd forsætisráðherra síðan um áramót þá vil ég segja að mér er a.m.k. kunnugt um að menn hafa legið mjög yfir því, bæði fulltrúar Öryrkjabandalagsins, fulltrúar og formaður örorkumatsnefndarinnar ásamt fulltrúum Tryggingastofnunar ríkisins, að skoða hvaða leiðir gætu komið í staðinn fyrir þær 100 þús. kr. sem verður frítekjumark til aldraðra en menn hafa ekki enn komist að niðurstöðu og þess vegna er þetta sett í bið en verður væntanlega afgreitt núna á vorþinginu.

Hér er talað um að tekjulágir lífeyrisþegar fái lítið í sinn hlut. Ég ætla ekki að neita því að ég hefði gjarnan viljað sjá að meira kæmi í hlut þessa hóps en þó er stigið þarna skref í átt til þess að bæta stöðu þeirra. Og ég vil nefna, af því að menn spyrja af hverju ekki sé 25 þús. kr. frítekjumark á lífeyrisgreiðslur aldraðra sem ég hefði gjarnan viljað sjá, að ef það hefði t.d. komið í staðinn fyrir þær 25 þús. kr. sem þeir eiga að fá sem fá ekkert úr lífeyrissjóði, ef val hefði verið á milli þessara tveggja leiða, hefðu um 3.000 manns ekkert fengið í sinn hlut af þeim hópi sem fær ekkert úr lífeyrissjóði og hefði ekki gagnast það ef sett hefði verið frítekjumark á lífeyrisgreiðslur. (Gripið fram í.) Já, það er hægt að taka þá umræðu líka.

Ég vil líka segja varðandi makatenginguna sem hér eru aðeins skiptar skoðanir um að ég held að það sé mikið réttlætismál, jafnvel þó að það séu fjölskyldutekjur og tekjur hjóna, að horft sé á fjárhagslegt sjálfstæði einstaklingsins. Vegna þess að það er þannig að bætur konu sem hefur kannski verið heima og ekki á vinnumarkaðnum en er gift manni sem hefur verulegar tekjur, hafa skerst vegna tekna maka. Það er hægt að nefna sem dæmi að ef eiginmaður var á vinnumarkaði og fékk 200 þús. kr. í tekjur en konan var bara með almannatryggingalífeyri þá skertust tekjur hennar um 19 þús. kr. mánuði. Hún hafði ekkert nema lífeyri almannatrygginga. Nú eru tekjur hennar bættar verulega og hún fær um 230 þús. kr. meira úr almannatryggingakerfinu eftir þessa breytingu. Það má líka horfa á þetta mál út frá þessu.

Hér var talað um 10.000 einstaklinga sem hefðu innan við 25 þús. kr. úr lífeyrissjóði og þá var miðað við árið 2005. Nýjustu tölur sýna að nú eru um 8.000 manns sem hafa innan við 25 þús. kr. úr lífeyrissjóði og þar af eru 3.000 manns sem hafa nákvæmlega ekki neitt en fá þó 8 eða 10 þús. kr. af þessum umræddu 25 þús. kr. Ég tek undir með þeim sem gagnrýna þá miklu skerðingu sem þessar 25 þús. kr. verða fyrir. Það er mál sem taka þarf á í þeirri einföldun sem við boðum núna og fram undan er á lífeyrissjóðakerfinu vegna þess að það er auðvitað ekki réttlætanlegt þegar verið er að bæta kjör lífeyrisþega að þá standi þeir einungis uppi með einn þriðja af því sem á að bæta eftir skatta og skerðingar. Við hljótum öll að vera sammála um það og reyna að einbeita okkur að því í næstu lotu að breyta þessu.

Ég vil líka nefna að það koma verulegar bætur fyrir ellilífeyrisþega sem er á vinnumarkaði. Ef sá aðili er t.d. með 1.200 þús. kr. á ári munu bætur hans hækka um 374 þús. kr. eftir þessa breytingu, eftir að hætt verður að skerða lífeyri hjá þeim sem er með undir 1.200 þús. kr. í atvinnutekjur.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu en vil þó taka undir gagnrýni á vasapeningana svokölluðu sem kom fram hjá hv. 12. þm. Suðvesturkjördæmis, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, og hv. 6. þm. Norðausturkjördæmis. Þetta er mjög réttmæt gagnrýni vegna þess að eins og fyrirkomulagið er núna er hreinlega verið að taka fjárhagslegt sjálfstæði af öldruðu fólki sem er á ýmsum stofnunum og eitt af því sem er á verkefnalista okkar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu er að breyta þessu. Í stefnumörkun í málefnum aldraðra sem er núna á lokastigi í ráðuneyti mínu, en þar hefur verið sérstakur starfshópur sem vinnur með þessa stefnumörkun, er einmitt tekið á þessu máli, að þessu fyrirkomulagi þurfi að breyta.

Virðulegi forseti. Ég held að ég tefji ekki umræðuna frekar til að þetta mál geti orðið sem fyrst að lögum en ég vil bara þakka fyrir þá góðu og málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tek undir margt af því sem komið hefur fram hjá þeim stjórnarandstæðingum sem hér hafa talað en minni líka á í leiðinni að margt af því sem við erum að fara að samþykkja núna, væntanlega á næstu klukkutímum, kannski 80–90% af því er að finna í tillögu sem flutt var af stjórnarandstöðunni á síðasta þingi um nýja framtíðarskipan lífeyrismála.