135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[13:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju með þetta frumvarp. Hér eru stigin ýmis framfaraspor. Nefni ég þar sérstaklega afnám tekjutengingar maka í almannatryggingakerfinu. Þar er um að ræða mannréttindamál, ekki síst hvað varðar öryrkja.

Ýmislegt annað er mjög til bóta í þessu frumvarpi en ég harma að sjálfsögðu að ekki skuli komið til móts við tekjulægsta fólkið, við tekjulægstu öryrkjana. Það er ekki gert með þessu frumvarpi.

Ég sakna þess líka að hér skuli ekki vera að finna frítekjumark fyrir greiðslur úr lífeyrissjóðum eins og heitið hafði verið í aðdraganda kosninganna af hálfu Samfylkingarinnar. Þá sakna ég þess einnig að ekki skulu hafa verið lagfærðar aldurstengdar greiðslur til öryrkja í samræmi við það sem Samfylkingin hét (Gripið fram í.) í þingsal á árinu 2004, (Forseti hringir.) hvers vegna í ósköpunum ekki skuli staðið við þau loforð sem þá voru gefin og einnig (Forseti hringir.) í aðdraganda kosninganna. Það er nokkuð sem við söknum í þessu frumvarpi.