135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[14:00]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ræddi hér þann þátt málsins að leyfa sölu nikótínlyfja og er rétt að taka fram að verið er að tala um nikótínlyf sem ekki eru lyfseðilsskyld, að leyfa sölu á þeim á fleiri stöðum en í apótekum. Þar takast tvö sjónarmið á. Mörgum finnst eðli máls samkvæmt ekki mjög rökrétt ef gott aðgengi er að tóbaki en ef einstaklingur tekur þá ákvörðun að hætta að reykja þurfi hann að fara í sérstakar verslanir til að nálgast hjálpartæki, við getum kallað það því nafni, til að vinna á þeirri fíkn. Það eru örugglega margar hliðar á því máli. Menn geta haft mismunandi sjónarmið hvað það varðar en hins vegar var þetta sett í frumvarpið eins og með flúorlyf vegna þess að menn töldu að ekki væri verið að setja hlutina í neina hættu með því að hafa þetta með þessum hætti.

Varðandi sölu tóbaks, sem hv. þingmaður minntist á, þá eru einnig ýmis sjónarmið um það. En síðast þegar ég skoðaði gekk eftirlitið með þeirri verslun ágætlega. Þrátt fyrir, eins og hv. þingmaður benti á, að ungt fólk afgreiði í stórmörkuðum eru ekki, eftir því sem ég best veit, mikil brögð að því að verið sé að selja tóbak yngra fólki en heimilt er. En ég tek fram, virðulegi forseti, að það er nokkuð síðan ég skoðaði það. Reyndar vann ég svolítið að þessu þegar ég var á vettvangi borgarstjórnar með núverandi aðstoðarmanni félagsmálaráðherra, en það er önnur saga.