135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[14:15]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Magnússyni fyrir ræðu hans og viðbrögð. Hv. þingmaður er nú búinn að berjast fyrir hagsmunum neytenda í áratugi og þekkir þetta mál vel. Það er því gott að fá innlegg hans og aðkomu að þessu máli.

Það er skemmst frá því að segja, svo ég reyni nú að fara yfir þær spurningar sem bornar voru fram, að ef þetta frumvarp nær fram að ganga — og í rauninni er það nú þegar — þá geta menn ávísað á hvaða apótek sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins. Einstaklingum er það heimilt þar sem einungis er verið að auðvelda mönnum að hafa milligöngu um það. Ástæðan fyrir því að það er bundið við lyfsöluleyfi er sú að einhver verði ábyrgur ef eitthvað kemur upp. Hér er ekki verið að tala um netverslun sem eru oft með ólögleg lyf og annað slíkt. Það verður einhver að vera ábyrgur. Þess vegna viljum við hafa faglegan aðila á Íslandi sem er ábyrgur til þess að þetta verði gert eins vel og mögulegt er.

Það sem opnar möguleikana á þessu er áhersla okkar á rafrænu stjórnsýsluna, á rafrænu lyfseðlana. Rafræna gáttin gerir það mögulegt að auka viðskipti með lyf og opnar þar af leiðandi fyrir þá markaði fyrir Íslendinga sem við berum okkur saman við.

Varðandi sama verð um allt land þá er ekkert sem bannar lyfsala á Seyðisfirði að lækka verðið. Við höfum verið að skoða reynslu annarra landa og leggjum áherslu á að menn keppi í verðlagi en ekki afslætti og að markaðurinn sé eins gegnsær og mögulegt er. Tilkynningaskyldan er heldur ekkert mál.

Virðulegi forseti. Ég verð að fá að klára þær spurningar (Forseti hringir.) sem hér voru bornar fram í næsta andsvari.