135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[14:21]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég lýsti því í stuttu andsvari við hæstv. heilbrigðisráðherra áðan að ég fagnaði því ef hægt væri að lækka lyfjaverð og lyfjakostnað einstaklinga. Þá fagna ég því alveg sérstaklega ef hægt er að lækka verð á lyfjum til þeirra sem eru langveikir og með króníska sjúkdóma því að þeir bera óheyrilegan kostnað af lífsnauðsynlegri og/eða verkjastillandi lyfjanotkun sinni. Ég fagna því öllum aðgerðum í þá átt.

Það er spurning til hvaða aðgerða við grípum og fljótt á litið tel ég að þetta sé spor í rétta átt. Að sama skapi tel ég mjög mikilvægt að við förum vel yfir þetta og reynum að skoða til enda hvað þetta getur þýtt þegar út í raunveruleikann er komið. Ef hægt er að sjá fyrir þróun fyrirhugaðra póstsendinga eða póstþjónustu erlendis frá, hvernig getum við þá tryggt öryggi á afgreiðslu lyfjanna, að þeir sem taka þau, geri það rétt o.s.frv.?

Það er erfitt oft og tíðum að sjá það fyrir þótt maður telji sig hafa góðar hugmyndir og vera búinn að finna réttu lausnina. Þegar síðustu stóru breytingarnar á lyfjalögum voru gerðar, átti að koma á samkeppni og þar með að lækka lyfjaverð til sjúklinga og einstaklinga. Þá held ég að enginn hafi séð fyrir að þær breytingar mundu leiða til fákeppni eins og gerðist í staðinn fyrir að þær leiddu af sér samkeppni og verðlækkun. Stundum þróast málin því þannig og það er ófyrirsjáanlegt.

Hugsanlega er það bara af vankunnáttu eða þá að markaðurinn breytist, sem hefur náttúrlega gerst hér á mörgum sviðum því að það er ekki eingöngu lyfjamarkaðurinn sem breytist. Það gerist á matvörumarkaðnum líka. Nú eru það fáar keðjur sem reka matvöruverslanir út um allt land. Sama gerist í öllum fiskbúðum hér á höfuðborgarsvæðinu. Fisksalan á horninu er ekki lengur til því að fisksölur eru komnar undir tvær keðjuverslanir líka. Þetta á sér því stað á mörgum sviðum.

Varðandi þær breytingar sem hér eru lagðar til þá hvet ég til þess að hæstv. heilbrigðisnefnd verði gefinn tími til að fara vel yfir það frumvarp sem liggur fyrir og reyna að skoða þessar breytingar frá öllum hliðum til þess að tryggja það að hinn góði vilji, sem hér kemur fram, skili sér.

Þá vil ég leyfa mér að minnast á nokkur atriði sem ég vil að við skoðum vel. Það er varðandi nikótínlyfin, eins og ég gat um í stuttu andsvari áðan. Nikótínlyf eru mjög góð þegar þau eru notuð eins og ætlast er til að þau séu notuð. Þetta eru lyf til að hjálpa fólki að hætta að reykja.

En þar sem nikótín er mjög sterkt ávanabindandi efni eru mjög margir sem eiga erfitt með að hætta að reykja eða sleppa nikótíninu. Þeir sem verða hvað háðastir þessu efni eru þeir sem eru veikari fyrir, eiga við geðsjúkdóma að stríða, þunglyndi og annað og það virðist valda því að fíknin í nikótínið verður meiri og erfiðara verður að losna við nikótínfíknina. Því skiptir miklu máli að lyfin séu notuð sem stuðningur til þess að hætta að reykja og að með fylgi faglegar ráðleggingar.

Í flestum tilfellum er ekki gert ráð fyrir að fólk noti þessi lyf lengur en í þrjá mánuði í senn. Falli nú einstaklingarnir á reykleysinu og byrji að reykja aftur, sem mjög margir gera því að þetta er erfið barátta, er jafnvel farið aftur í nikótínlyfin en notkun þeirra á alltaf að vera tímabundin.

Fyrir þá sem eru hvað háðastir nikótíninu verður þetta í raun og veru val, að falla og reykja eða nota nikótín í lyfjaformi. Af tvennu illu má segja að nikótínlyfin séu þá betri en að reykja því að þar með losnar þá fólk við allan reykinn og þau krabbameinsvaldandi efni sem eru í reyknum. Fólk situr þá eftir að svala nikótínfíkninni.

Annað viðhorf verður til lyfjanna ef þau eru til sölu úti í matvörubúð en ef maður þarf að fara í apótek til að kaupa þau. Þá verður ekki þessi hvati fyrir hendi að nota nikótínlyfin sem lyf í ákveðinn tíma til að reyna að hætta heldur verður það auðveldara að kaupa nikótín og viðhalda fikinni. Ég held því að við ættum að skoða þetta þrátt fyrir að betra sé að nota nikótínlyfin en að reykja. Við ættum að líta til þeirra landa sem hafa farið með nikótínlyf í smásölu og sjá hvernig nikótínlyfjanotkunin hefur þróast, hvort komið hafi inn nýr neytendahópur, t.d. þunglynt fólk, sem hafi byrjað að nota nikótíntyggjó sem örvandi lyf og vegna þess að það er svo aðgengilegt í staðinn fyrir að reykja. Ég tel að það sé rétt að við skoðum þetta til að sjá hvort þetta sé þá rétta leiðin til þess að draga úr reykingum.

Það er hægt að fara fleiri leiðir varðandi nikótínlyfin. Það mætti setja ákveðnar reglur, fá gjaldfrjáls lyf eða að fá lyfin afhent í apóteki, þá með tilvísun frá læknum í ákveðinn tíma á meðan maður fær þann stuðning sem nauðsynlegur er. Það mundi hjálpa þeim sem eftir sitja og eiga hvað erfiðast með að hætta að reykja. Það verður þá bara í takmarkaðan tíma, í þrjá mánuði, og ef lyfin duga ekki verður viðkomandi að velja á milli þess að hætta við lyfin eða að kaupa þau sjálfur. Það er því líka hægt að fara þá leið.

Ég hef áhyggjur af sölu á tóbaki almennt inni í stórmörkuðum, þá aðallega á þeim stöðum þar sem unglingar eru að afgreiða því að ég tel að það sé allt of algengt að tóbaksvarnalögin séu brotin. Allt of ungt fólk, undir 18 ára aldri, selur tóbak og hefur í sumum tilfellum ekki einu sinni tækifæri til þess að kalla á einhvern fullorðinn til þess að afgreiða. Mér finnst það því vera umhugsunarefni hvort ekki eigi að takmarka sölu á tóbaki í verslununum, þá við sjoppur eða afmarkaða staði, svo fremi sem sala á tóbaki er leyfð.

Hvað varðar aðra þætti sem koma fram í 10. gr. frumvarpsins um að lyfjaverð verði það sama um allt land þá tel ég að það sé mjög jákvætt. Afsláttur og afsláttarkjör sem boðist hafa eru miklu frekar þar sem samkeppnin er hvað hörðust, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem afsláttur hefur verið meiri og óljóst er að gera sér grein fyrir hvert raunverulegt verð á lyfinu er.

Önnur leið til sparnaðar, og ekki síðri leið en kemur fram í þessu frumvarpi, snýr að læknum sem ávísa lyfjum, og ekki síst að vinnuumhverfi og aðstöðu lækna og viðhorfi. Það er í fyrsta lagi að hvetja til þess að reyndar séu aðrar leiðir en að grípa til lyfja og eins að aðstoða fólk meira en eingöngu með lyfjagjöfum. Hvað varðar ávísun á lyf þarf á mörgum sviðum breytt viðhorf. Þar á ég sérstaklega við sýklalyf. Við notum of mikið af sýklalyfjum við ákveðnum sjúkdómum eins og eyrnabólgu, eins og innlendar rannsóknir hafa sýnt.

Við erum efst hvað varðar notkun ákveðinna lyfja á Norðurlöndunum. Ef þetta eru lyfseðilsskyld lyf þá liggur ábyrgðin í raun og veru hjá læknum og kannski því umhverfi sem þeir vinna í. Það getur verið fljótlegra og betra að ávísa lyfi en að gefa sér tíma og hafa tækifæri til þess að styðja sjúklinginn með öðrum hætti. Lyfjanotkunin hjá okkur stjórnast ekki síður af ávísunum lækna og því vinnuumhverfi sem þeir vinna í.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, hæstv. forseti. Ég hvet til þess að frumvarpið verði sent út til allra þeirra sem málið varðar og að við getum gefið okkur góðan tíma til þess að skoða allar hliðar málsins.