135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[14:34]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leggja nokkur orð í belg í sambandi við frumvarpið sem hér er til umræðu um lyfjamálin. Það er vissulega stór málaflokkur og dýr. Í þessu frumvarpi er a.m.k. viðleitni í þá átt að lækka lyfjakostnað. Það er mjög af hinu góða. Ég er ekki sérfræðingur á sviði lyfjamála eða heilbrigðismála eins og síðasti ræðumaður og get ekki farið djúpt í þá umræðu eins og hún gerði og er að auki lítill neytandi á sviði lyfja, guði sé lof má kannski segja. En mér finnst dálítið einkennilegt, ég spyr hæstv. ráðherra út í það, að lesa umsögn fjármálaráðuneytisins. Henni lýkur með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Ekki verður séð að frumvarpið leiði til teljandi breytinga á útgjöldum einstakra stofnana ríkisins eða ríkissjóðs í heild.“

Mér finnst þetta ekki segja nógu mikið um að frumvarpið, verði það að lögum, komi til með að minnka kostnað, sem hlýtur að vera tilgangurinn. Hæstv. ráðherra sagði áðan að tilgangurinn og markmiðið væri að draga úr útgjöldum ríkisins vegna lyfjakostnaðar. Hann getur kannski útskýrt þetta fyrir okkur betur síðar í umræðunni. Auðvitað hefur þetta verið eilíf barátta, að reyna að lækka bæði kostnað ríkisins og einstaklinga vegna lyfjakaupa og hafa svo sem verið tekin ákveðin skref í þeim efnum fyrr. Einhver árangur hefur þegar náðst en með þessu frumvarpi vonumst við til að hann geti orðið meiri.

Hér er samsafn af ýmsum málum sem lagðar eru til breytingar á og kannski er kveikjan að öllu þessu sú að heimila póstverslun sem allmikið var til umfjöllunar í þjóðfélaginu fyrir nokkrum mánuðum síðan. Það er eitt af því sem við verðum að skoða vel í heilbrigðisnefnd, hvort öryggið sé tryggt. Það hlýtur að vera stóra spurningin varðandi póstverslun með lyf, að öryggi sé tryggt. Eins hef ég áhuga á að fá upplýsingar um hvaða áhrif þetta hefur á landsbyggðina, t.d. hvort lyfjaverslanir eigi erfiðara uppdráttar. Við skulum sjá til hvaða upplýsingar okkur berast um það í nefndinni.

Það að auka frjálsræði með sölu á nikótín- og flúorlyfjum utan lyfjabúða tel ég spennandi mál sem við eigum að skoða til hlítar. Ég væri ánægð með það ef hægt væri að lækka verðið á lyfjum sem eru mikil hjálp fyrir það fólk sem er að reyna að hætta að reykja. Það er líka mál sem þarf að skoða í nefndinni, varðandi frjálsræði í verslun á þessum lyfjum. Þau eru vissulega hættuleg en mikilvægt að fólk geti átt greiðan aðgang að þeim.

Að verð skuli vera hið sama um allt land hljómar ákaflega vel og sérstaklega vel í mínum eyrum. En ég spyr þá um það sem hefur viðgengist, að sjúklingahópar hafa getað fengið afslætti. Hefur þetta einhver áhrif á það? Það hefur verið eitt af því sem hefur skipt máli.

Fleira mætti nefna í þessu ágæta frumvarpi en er kannski ekki til að hafa mörg orð um við 1. umr. Það að flytja leyfisveitingar úr ráðuneyti í Lyfjastofnun er í samræmi við stefnuna hjá bæði þessari og fyrrverandi ríkisstjórn eftir að ákveðið var að taka stefnuna á einfaldara Ísland. Ég geri ekki athugasemdir við það.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp við 1. umr. Ég tel að þetta mál þurfi fyrst og fremst að skoða í nefnd. Þarna er bryddað upp á nýjungum sem ég vona sannarlega að verði til að lækka verð og eins að bæta þjónustu við neytendur. Það er tilgangurinn.