135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[15:00]
Hlusta

Paul Nikolov (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna 2. gr. mjög, að lyf sem hjálpa fólki að hætta að reykja verði eins aðgengileg og skaðvaldurinn, eitrið sem tóbakið er. Ég tel líka eðlilegt og sanngjarnt að ef hægt er að setja reykingabann á fólk þá hjálpum við því líka að hætta að reykja. Við erum að tala um eitur sem sannarlega kostar heilbrigðiskerfið okkar gríðarlega mikið og einnig kostar það okkur mikið mannfall. Þess vegna tek ég undir með hv. þm. Þuríði Backman sem segir að fræðsla sé lykilatriði í þessu máli og að tóbak sé of aðgengilegt. Ég er bara með eina tæknilega spurningu.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Nikótínlyf sem seld eru í lausasölu eru í formi tyggigúmmís, plásturs- og innsogs- og nefúðalyfs. Ákvæðið tekur einungis til nikótínlyfja sem ekki eru lyfseðilsskyld. Hins vegar eru til nikótíntöflur sem einungis fást gegn framvísun lyfseðils og verður ekki gerð breyting á því með þessu frumvarpi.“

Er eitthvað í frumvarpinu varðandi tungurótartöflur? Þær eru ekki lyfseðilsskyldar, samkvæmt þessu. Þetta er spurning sem ég vil aðeins vita meira um. Ég hef ekki um þetta fleiri orð, ég hlakka til að sjá framvindu þessa máls.