135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[15:02]
Hlusta

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því frumvarpi sem hér kemur fram ef tilgangur þess næst, þ.e. að hrista upp í lyfjamarkaðnum hér á landi sem ég tel ekki veita af. Ég er þeirrar skoðunar að samkeppni sé besta leiðin til að lækka verð og þetta frumvarp virðist opna fyrir það. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á það sem kom fram í svari ráðherra við spurningu hv. þm. Jóns Magnússonar fyrr í umræðunni að hér er ekki verið að tala einungis um innanlandspóstverslun heldur póstverslun á EES-svæðinu, þ.e. til annarra ríkja í Evrópu sem eru á því svæði.

Þá skil ég það einnig þannig að í gegnum umrædda póstverslun verði hægt að kaupa lyf sem jafnvel hafa ekki markaðsleyfi hér á landi af því að þau hafa markaðsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu og þar með sé öllu öryggi fullnægt.

Það er einungis þetta sem ég vil fá staðfestingu á hjá hæstv. ráðherra að sé rétt skilið hjá mér en ég held að frumvarpið sé hið besta mál.